144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

256. mál
[19:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra olli mér áhyggjum því að í svari hans kom fram að fjölmiðlanefnd teldi sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að framfylgja lögbundnu hlutverki sínu, að meta almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, að það hafi verið uppfyllt. Á meðan eigum við hér samtal um Ríkisútvarpið sem virðist byggja á einhvers konar misskilningi á því hvað almannaþjónustuhlutverk sé, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi áðan, að fólk sé að kvarta yfir því að Ríkisútvarpið eigi ekki að vera allt fyrir alla. Jú, það er eiginlega einmitt það sem almannaþjónustuhlutverkið snýst um og þannig eru almannaþjónustuútvörp rekin um alla Evrópu sem við viljum bera okkur saman við. Það er þetta víðtæka hlutverk þar sem ekki endilega er verið að beina sjónum eingöngu að einu efni, en vissulega mjög ríkt lýðræðislegt hlutverk, fræðsluhlutverk, menningarlegt hlutverk, en líka afþreyingarhlutverk því að afþreying er auðvitað líka hluti af þeirri menningu sem við búum við í dag.

Þegar almannaþjónustuhlutverkið var skilgreint á sínum tíma í þessari löggjöf var það byggt í fyrsta lagi á mjög mikilli vinnu, samráðsvinnu við ýmsa aðila, og líka var horft til löggjafar annarra Evrópuríkja einmitt af því að fólk sagði: Við þurfum að fylgjast með því að Ríkisútvarpið haldi sig innan almannaþjónustuhlutverksins, og þá er hér ákvæði um að fjölmiðlanefnd fylgist með þessu sambærilegt við það sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Því að þegar við settum fjölmiðlalögin voru þau að hluta til innleiðing á hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins, sem byggir einmitt á því að skýra nákvæmlega hvert hlutverk almannaútvarps er miðað við aðra fjölmiðla, því að þetta er samkeppnismarkaður.

Svör ráðherrans segja mér að fjölmiðlanefnd — sem sumir hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa talað um af mikilli léttúð, eins og hún hafi engu hlutverki að gegna og að við höfum nú búið hér frá landnámi án þess að hafa fjölmiðlanefnd, en fjölmiðlanefnd er lykilaðili í því að við getum skapað heilbrigt umhverfi á fjölmiðlamarkaði. En hæstv. ráðherra upplýsir að hún hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að sinna sínu lögbundna hlutverki.

Ég spyr því hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: (Forseti hringir.) Er einhver ætlun að bæta úr því? Og í öðru lagi: Telur hæstv. ráðherra að hægt sé yfir höfuð að fara í einhverja endurskoðun á almannaþjónustuhlutverki, eins og hér hefur verið reifað(Forseti hringir.) í salnum, meðan við erum ekki einu sinni með þetta mat?