144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur og treysti á að sú umræða sem skapast hefur um uppsagnir ræstingarkvenna hjá Stjórnarráðinu verði til þess að þau áform verði endurskoðuð og að þessum konum bjóðist áfram þau störf sem þær hafa haft og þau starfskjör sem þær hafa haft en þær verði ekki einkavæddar.

Ég kvaddi mér hér hljóðs vegna þess alvarlega ástands sem er að skapast á vinnumarkaði og vegna þeirra áhyggna sem menn hljóta að hafa af þeim kjarasamningum sem fram undan eru í vetur. Reynsluleysi stjórnarforustunnar varð til þess að í upphafi kjörtímabilsins glataði hún gullnu tækifæri til að ná langtímasamningum á vinnumarkaði, langtímafriði á vinnumarkaði.

Nú eru hafin verkföll og stjórnarathafnirnar benda ekki til þess að forsætisráðherra eða fjármálaráðherra átti sig á því að hér þarf að lægja öldurnar. Það virðist ekki vera neinn skilningur á því hjá stjórnarþingmönnum að hlusta þurfi á fólk. Það á bara að halda áfram með áformin til dæmis um hækkunina á matarskatti á fólkið í landinu.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því ef verkföllin, ef deilur á vinnumarkaði og ef áköll fólks hér úti á Austurvelli á mánudaginn eru ekki farin að valda því að stjórnarmeirihlutinn íhugi neitt að endurskoða stjórnarstefnuna, að leggja nýjar áherslur, að hlusta á gagnrýni, að hverfa frá áformum sem sundra þjóðinni.

Virðulegur forseti. Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Fjárlög koma hér til afgreiðslu eftir örfáar vikur. Þau geta verið grundvöllurinn að friði á vinnumarkaði, (Forseti hringir.) að farsælum kjarasamningum síðar í vetur, en til þess þarf stjórnin að gerbreyta fjárlagafrumvarpinu.