144. löggjafarþing — 28. fundur,  5. nóv. 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða alvarlegt ástand í atvinnumálum í sveitarfélaginu Strandabyggð. Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur sent frá sér ályktun þess efnis og óskað eftir fundi með sjávarútvegsráðherra og atvinnuveganefnd til að ræða grafalvarlega stöðu smábátaútgerðar í sveitarfélaginu.

Nú þegar hefur verið ákveðið að fulltrúar sveitarfélagsins eigi fund með sjávarútvegsráðherra á morgun og atvinnuveganefnd á föstudaginn, en málefni sveitarfélagsins hafa líka verið til umfjöllunar í Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og hjá Byggðastofnun sem undirstrikar alvarleika málsins því að um 40 störf í sjávarútvegi eru í hættu og nú þegar hefur helmingi þessa fólks verið sagt upp. Aðalástæður uppsagna eru að nánast enginn ýsukvóti er til staðar í byggðinni og fyrir utan 20% skerðingu á aflaheimildum í ýsu er búið að ákveða 48% skerðingu á línuívilnun í ýsu.

Eftir að kvótasetning rækju var ákveðin nýverið er líka boðaður stórfelldur niðurskurður í byggðakvóta til handa sveitarfélaginu úr 125 tonnum í 70 tonn sem þýðir 44% skerðingu á milli ára. Einnig hefur kvótasetning rækjunnar þau áhrif að takmarka stórlega veiðar rækjubáta um landið og hefur það áhrif á Hólmavík og bitnar hart á rækjuvinnslunni þar og smábátaútgerð í Strandabyggð.

Þess utan má geta þess að sýslumannsembættið verður lagt niður á Hólmavík og Arion banki lokar útibúi sínu í dag og þar hverfa líka störf úr byggðarlaginu.

Ég vil minna á að þetta þýðir að nú þegar hafa útgerðarmenn selt kvóta sinn og fólk er farið að flytja í burtu svo ég treysti því að (Forseti hringir.) stjórnvöld komi þarna að og vinni með heimamönnum til að koma í veg fyrir mjög erfitt ástand sem blasir við.