144. löggjafarþing — 31. fundur,  12. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra, ein umræða.

[16:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til þess að taka til máls undir þessum dagskrárlið, skuldaleiðrétting, skýrsla forsætisráðherra. Mér finnst mjög við hæfi að við höfum málið hér á dagskrá í kjölfar þess að meginniðurstöður eru kunngjörðar og fólk hefur fengið útreikninginn eftir því sem það hefur sóst eftir því inni á til þess gerðum vef.

Mig langar til þess að byrja mál mitt á því að ræða um aðdraganda síðustu kosninga, um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar og þar með meginástæðu þess að ríkisstjórnin hefur sett þetta mál á dagskrá og er að hrinda því nú í framkvæmd. Það vill svo til að hægt er að ræða málið frá ýmsum sjónarhornum. Áður en ég fer í einstök dæmi um áhrif fyrir lántakendur finnst mér samt sem áður mikilvægt að horfa á málið í stóra samhenginu.

Stóra samhengið sem ég vísa þar til er að heimilin voru í upphafi kjörtímabils skuldsett langt yfir 100% af landsframleiðslu. Sú gríðarlega mikla skuldsetning ein og sér er efnahagslegt vandamál. Skuldsetningin hafði eitthvað lækkað á síðasta kjörtímabili en var eftir sem áður gríðarlega há. Allir sem fylgdust eitthvað með stjórnmálum í aðdraganda síðustu kosninga, og ég veit að það á að sjálfsögðu við alla sem eru hér kjörnir til þings, vita að þetta var mál sem brann sérstaklega á íslenskum kjósendum. Mér finnst því að umræðan í dag geti ekki farið fram á þeirri forsendu, sem stundum skín í, að hér sé um algjörlega óþarft og óskiljanlegt mál að ræða. Því fer fjarri. Þetta er eitt helsta mál ríkisstjórnarinnar og svo ég tali nú fyrir minn flokk var þetta eitt af stóru málunum sem við settum á oddinn í samtali við kjósendur fyrir síðustu kosningar.

Hvað sögðum við í mínum flokki fyrir kosningar? Við sögðum: Við ætlum að beita skattkerfinu og séreignarsparnaðinum til þess að fólk geti náð fram um 20% lækkun á höfuðstól heimilisskuldanna, húsnæðisskuldanna, um 20% á allt að fimm árum.

Í því máli sem við ræðum hér munu þau áhrif nást fram með blandaðri aðferðafræði flokkanna á skemmri tíma sem er mikið fagnaðarefni. Sem sagt, með því að nota séreignarsparnaðinn og sækjast eftir niðurfærslu húsnæðislána munu langflestir geta náð fram um 20% lækkun húsnæðisskulda á þessum tíma innan kjörtímabilsins. Nú munum við áfram ræða um hvort rétt sé skipt og hvort dreifing fjármunanna hefði átt að vera með eitthvað öðrum hætti, en bara þetta stóra verkefni, að ná niður heildarskuldastöðu heimilanna og hún mun fara nálægt 95% í lok þessa árs, er risavaxið skref, vegna þess að skuldirnar hafa verið svo háar. Það er almennt viðurkennt sem vandamál í nágrannaríkjum okkar hvað skuldir heimilanna eru almennt orðnar háar. Það er risavaxið skref og svo hitt að fólk fær nú almennt tækifæri til að lækka skuldir sínar um 20% á kjörtímabilinu. Það er sérstaklega mikið ánægjuefni.

Ég hef heyrt ýmsu haldið fram frá því að kynning málsins átti sér stað á mánudaginn. Það er sagt að hér sé mjög villandi upplýsingum haldið að fólki. Þetta tel ég reyndar að standist ekki skoðun.

Sagt er að í einstökum liðum séu frádráttarliðir ekki innifaldir. En það er ekkert óeðlilegt við að einstök dæmi séu sýnd þar sem frádráttarliðir eiga ekki við. Svo eru sýnd önnur dæmi þar sem frádráttarliðir eiga við. Í heildarkostnaði aðgerðarinnar eru frádráttarliðir að sjálfsögðu teknir með í reikninginn.

Menn segja að kostnaður vegna aðgerðanna sé stórlega vanmetinn. Þeir eiga eftir að sýna fram á hvað það nákvæmlega er, en ég hygg t.d. að á yfirstandandi ári hafi kostnaður vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar verið eitthvað ofmetinn, vegna þess að skriðþunginn í því hversu margir sækjast eftir séreignarsparnaðarleiðinni hefur ekki verið jafn mikill og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Það er engu að síður mjög vaxandi fjöldi sem nýtir sér þá leið.

Við erum hér að tala um aðgerð sem yfir 100 þús. manns óskuðu eftir að njóta. Það gefur augaleið að með því er verið að ná snertingu við stóran hluta þjóðarinnar og einmitt við þann hluta sem er með húsnæðisskuldir og glímir við húsnæðisskuldavanda. Hvaða vandi er þetta? Jú, það er sá vandi sem skapaðist á árunum 2008 og 2009 og er tilefni allra þessara aðgerða og birtist í því að á sama tíma og húsnæðisverð fór lækkandi kom verðbólga sem hækkaði verðtryggðu lánin, atvinnuleysi jókst, kaupmáttur dróst saman og eignaverð almennt lækkaði. Þetta eru árin sem við köllum í daglegu hrunárin 2008 og 2009, það er þegar erfiðleikarnir birtust okkur sérstaklega.

Þrátt fyrir góða viðleitni oft á tíðum og ýmis úrræði sem voru leidd í lög eða samið um við fjármálastofnanir dugði það sem gert var á síðasta kjörtímabili einfaldlega ekki til þess að leysa vandann. Það er svo. Það er hins vegar athyglisvert að fylgjast með því hvernig stjórnarflokkar síðasta kjörtímabils sveiflast svolítið á milli þess að vísa annars vegar til þess að umfang aðgerðanna hafi jafnvel verið meira en þeirra sem við ræðum hér og hins vegar til þess að ríkissjóður hafi ekki nema að litlum hluta, kannski eins og 1/5, komið beint að aðgerðunum. Það þýðir að aðrir tóku bróðurpartinn á sig eins og við þekkjum, fjármálastofnanir og aðrir.

Hér er um að ræða almenna aðgerð. Já, það er rétt að hún kemur í framkvæmd ekki nákvæmlega eins út og félagslegar aðgerðir með tekjutengingum eins og við þekkjum og öðrum skerðingum. Það er alveg rétt, en það eru þó skerðingar. Þak er á aðgerðinni sem er 4 milljónir. Það er sömuleiðis ákveðin skerðing eða þak fólgið í því að draga fyrri aðgerðir frá. Með því verður heildardreifing þeirra fjármuna sem við erum með undir sú að bróðurpartur aðgerðarinnar, u.þ.b. 3/4, lendir hjá meðaltekjufólki og þeim sem hafa tekjur þar undir. Það eru u.þ.b. 3/4 aðgerðarinnar. Þegar menn fóru í almenna aðgerð á þeim forsendum sem hér voru kynntar stóð aldrei til að undanskilja einhverja sérstaka hópa. Í því birtist meðal annars efnahagslegt eðli aðgerðarinnar. Það var sjálfstætt og sérstakt markmið að ná niður heildarskuldastöðu heimilanna.

Hefur einhver heyrt talað mikið um að eitthvað sé eftir ógert núna eftir að þessar aðgerðir voru kynntar fyrir þá sem voru með verðtryggð lán? Ég heyri það ekki. Mér finnst hafa slokknað á þeirri umræðu eftir að aðgerðirnar voru kynntar. Það er einn mælikvarði á það að við erum að ná árangri í því að binda slaufu á aðgerðir vegna þess hóps sem varð illa úti 2008 og 2009 með verðtryggð krónulán vegna kaupa á eigin fasteign. Lenda einhverjir fyrir utan úrræðin? Leigumarkaðurinn er nefndur. En þetta er ekki aðgerð sem átti að leysa vanda þeirra sem eru á leigumarkaði.

Þeir sem hafa áður notið úrræða umfram 4 milljónir eru nefndir. Já, þeir hafa þá notið leiðréttinga af ýmsum toga, þeir sem áður hafa fengið 4 milljónir eða meira sem hafa komið til frádráttar og eru þess vegna ekki með í þessari mynd. Það er dálítið holur hljómur í því að spyrja annars vegar hvers vegna þeir séu skildir eftir og hins vegar að tala um að sumir fái of mikið sem ekki þurfi á að halda, vegna þess að það voru einkum þeir sem voru tekjuhærri, búnir að taka mjög há lán, sem fengu þessar miklu niðurfærslur. Það eru einkum þeir sem lenda utan úrræðisins núna. Enda sjáum við það á því hverjar meðallækkanir lánanna eru í aðgerðinni. Hin klassísku venjulegu lán eru um 13–15 milljónir. Samkvæmt því mundi 110%-leið, ef skuld á slíku heimili væri komin yfir 15, 16, 17 milljónir, skila um 1–2 milljónum, eitthvað svoleiðis. Viðkomandi mundi þess vegna njóta til fulls þeirra aðgerða sem við ræðum hér.

Mér finnst því ákveðin þversögn í því fólgin að tala um þá sem ekki njóta þessarar aðgerðar á sama tíma og gagnrýnt er að einhverjir fái of mikið, vegna þess að það voru einkum þeir sem höfðu steypt sér í mjög háar skuldir, voru í milljónatuga skuld í stórum eignum, sem nutu mikillar leiðréttingar í aðferð eins og 110%-leiðinni.

Svo spyrja menn: Hefði ekki verið hægt að nota þá fjármuni sem við ræðum um hér til að lækka skuldir? Þeir eiga að sjálfsögðu við opinberar skuldir eða ríkisskuldir. Við því segi ég: Við erum að nota fjármunina til að lækka skuldir, við erum að lækka skuldir heimilanna. Þetta fer allt í skuldalækkun þegar upp er staðið. Það má segja að með aðgerðinni sé verið að fylgja þeirri stefnu að þessum fjármunum sé í þeim skilningi betur fyrir komið hjá almenningi en í ríkissjóði. Betur fyrir komið hjá almenningi, fólkinu í landinu. (Gripið fram í.)

Hver er frumeining þjóðfélagsins? Það er fjölskyldan. Fjölskyldan er sú eining sem þjóðfélagið stendur saman af. Við erum í grófum dráttum með fjóra hópa heimila. Við erum með þá sem skulda ekkert, það eru 25% þjóðarinnar sem skulda ekki neitt í fasteignum. Við erum með þá sem skulda. Það er helmingur þjóðarinnar. Og við erum með þá sem eru utan fasteignamarkaðarins, þ.e. ekki í eigin húsnæði. Það er um það bil 1/4.

Vilji menn ræða sérstaklega um þann hóp og hvað við getum gert til að koma betur til móts við hann getum við gert það, en það stóð aldrei til að sá hópur mundi með beinum hætti njóta góðs af þeim aðgerðum sem hér eru kynntar til sögunnar. Þær snerust um verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, það hefur allan tímann legið ljóst fyrir.

Ég ætla ekki að fara í mikla tölulega upptalningu en ég gæti nefnt að þúsundir heimila færast úr neikvæðu eigin fé yfir í jákvætt. Þúsundir heimila. Það er nefnt að hætta sé á ákveðinni þenslu. Peningamál Seðlabankans eru nýkomin út, þetta hefur allt legið fyrir. Vextir eru engu að síður að lækka og verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar eru jákvæðar, vil ég segja. Það eru horfur á að verðbólgan verði áfram innan vikmarka.

Með því síðan að flýta aðgerðunum, flýta framkvæmd aðgerðanna, sparast vaxtakostnaður og langtímaáætlun í ríkisfjármálum lítur enn betur út en hún hefur gert til þessa. Það losnar þá um 20 milljarða á árinu 2017. Sú bætta afkoma ríkissjóðs sem birtist okkur á árinu 2014 mun að einhverju leyti fylgja okkur inn í næsta ár. Þess vegna geta menn treyst því að við erum smám saman að komast í betri færi til að sinna öllum hinum fjölmörgu verkefnunum.

Við getum ekki talað eins og að við í ríkisstjórninni höfum gert upp á milli þess að fara í þessa aðgerð eða sinna heilbrigðismálum. Við Íslendingar höfum til dæmis aldrei sett fleiri krónur í Landspítalann en við gerum á þessu ári. Aldrei í sögunni. Það hefur aldrei farið meira fjármagn í þann spítala en núna. Aldrei. Samt láta menn í umræðunni eins og þar sé massífur niðurskurður í gangi. Það er bara rangt. Hins vegar finna menn þar enn fyrir þeim mikla niðurskurði sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í.) þegar skornir voru niður nokkrir milljarðar nokkur ár í röð. Menn finna fyrir því. (BjG: Þið bættuð ekki í í góðærinu.) Það er skiljanlegt, en við erum komin með viðspyrnu.

Sama gildir um samgöngumál. Það er ekki hægt að tala í þessari umræðu eins og við séum ekkert að gera í samgöngumálum þegar við förum með yfir 20 milljarða í þann málaflokk. Auðvitað er verið að sinna samgöngumálum. (Gripið fram í: Hvar er samgönguáætlun?) Samgönguáætlun er til staðar, það vantar upp á fjármögnun hennar 1–2 milljarða eða svo til að við séum að fylgja henni að fullu. Er það eitthvað sögulegt? Það er bara í samræmi við það sem hefur svo oft verið.

Aðalatriðið er að við gerum þetta á sama tíma og við höfum lokað fjárlagagatinu. Horfur eru góðar í efnahagsmálum. Okkur er að vaxa fiskur um hrygg. Þessi aðgerð er (Forseti hringir.) stóraðgerð, ekki bara í okkar sögulega samhengi heldur jafnvel á alþjóðlega vísu, til þess að lækka heildarskuldastöðu heimilanna, gefa heimilunum súrefni og viðspyrnu sem mun birtast í jákvæðara efnahagslífi inn í framtíðina, m.a. í hærri landsframleiðslu sem menn geta dregið frá þegar þeir reikna kostnaðinn af þessu máli.

Þess vegna fagna ég tækifæri til að koma hingað, fagna því að þetta sé að komast allt til framkvæmda. Ég þakka fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem málið hefur fengið úti í samfélaginu og bið menn um að horfa jákvæðum augum á næsta ár og árin þar á eftir, vegna þess að staðan er öll að snúast okkur í hag.