144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

skuldaleiðrétting og staða ríkissjóðs.

[16:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að benda á nokkur atriði og spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurningu. Ég vil þakka fyrir þessar umræður þó að tekist hafi að koma þeim á óvenjulágt stig með fyrri ræðu hjá hv. þingmanni sem hefur notað orð eins og „athyglishóra“ um listamenn sem honum þóknast ekki. En mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvernig gangi að skoða afnám verðtryggingar og hvort til standi að gera það. Þá langaði mig að vita hver aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er ef dómur fellur henni í óhag varðandi bankaskattinn.

Síðan langaði mig til að spyrja hvað ríkisstjórnin sé að gera til þess að fyrirbyggja nýjan forsendubrest. Mér sýnist ekkert hafa verið gert til að fyrirbyggja það. Á þá aftur að fara að útdeila forsendubrestsaðgerðum á kostnað þeirra sem ekki eiga heimili, samkvæmt þeim sem hér tala? Mér finnst það svolítið merkilegt út af því að ég t.d. tilheyri þeim stóra hópi fólks sem á ekki heimili af því að ég var leigjandi. Það eru margir sem eru leigjendur en það er alltaf verið að tala um skuldaleiðréttingu heimilanna. Hvað með alla þá aðila sem eiga ekki heimili? Mér finnst þessi orðræða ekki til sóma. (Gripið fram í.)

Mig langar að spyrja hvað eigi nákvæmlega að gera fyrir alla þá öryggislausu og heimilislausu einstaklinga sem búa í samfélagi okkar í dag.