144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir því að á Íslandi njóta stjórnmálamenn og Alþingi lítils trausts. Ástæðurnar eru margar. Ein er eflaust sú að það virðist lenska í stjórnmálum að gera miklu meiri kröfur til annarra en til sjálfs sín, þ.e. að gera miklu meiri kröfur til annarra flokka en eigin flokks, meiri kröfur til annarra þingmanna en samflokksmanna. Þetta er eflaust mannlegt eðli en verður svo skelfilega áberandi hjá okkur stjórnmálamönnunum.

Þessa dagana horfum við á ráðherra sem virðist ekki ætla að axla ábyrgð á eigin embættisfærslum. Meiri hlutinn þegir þunnu hljóði og virðist styðja ráðherrann og margir hafa reyndar gert það opinberlega. Ég velti fyrir mér hvort þessir sömu þingmenn hefðu setið þegjandi í þingsal ef t.d. þáverandi ráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hefði á síðasta kjörtímabili lent í nákvæmlega sömu hremmingum eða hvaða ráðherra sem er. Hefði þetta sama fólk þá setið hér þegjandi og ekki gagnrýnt embættisfærslurnar?

Þetta er svo ótrúverðugt. Þingmenn virðast ekki bara skipta um skoðun, þeir beinlínis skipta um sannfæringu eða réttlætiskennd eftir því hvorum megin borðsins þeir sitja. Þá veltir maður fyrir sér hvort þingmenn og ráðherrar sem nú segjast styðja innanríkisráðherra, eftir allt sem á undan er gengið, geti nokkurn tímann með trúverðugum hætti kallað eftir afsögn ráðherra eða lýst yfir vantrausti á ráðherra þegar þeir verða komnir í stjórnarandstöðu. Að sama skapi getum við öll sem nú teljum að hæstv. innanríkisráðherra eigi að stíga til hliðar að sjálfsögðu ekki skilað auðu ef ráðherrar sem eru okkar flokksmenn eða tilheyra ríkisstjórn sem við eigum aðild að hegða sér þannig að það skaði embættið.

Ef við viljum bæta orðsporið og auka traust á stjórnmálum verðum við að leitast við að vera sjálfum okkur samkvæm. Það er áskorun því að, eins og ég segi, það er mannlegt að gagnrýna aðra en fara í vörn þegar maður sjálfur (Forseti hringir.) er gagnrýndur. Mér finnst það þess virði að reyna.