144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Hinir ýmsu atburðir sem hafa átt sér stað síðustu daga hafa leitt huga minn að spurningunni: Hvar erum við eiginlega stödd sem samfélag? Hvernig getum við sem samfélag sem telur rúmlega 300 þúsund manneskjur verið svona ósamstiga og sundurlynd?

Mikilsvirtur rithöfundur kallar fólk á landsbyggðinni hyski sem sé að drepast úr frekju. Listamaður segir sataníska áru yfir tilteknum stjórnmálaflokki og þingmaður sama flokks kallar listamanninn nafni sem er ekki hafandi eftir hér í ræðustól. Á vefmiðlum og bloggsíðum erum við þingmenn og æðstu ráðamenn þjóðarinnar kallaðir öllum illum nöfnum, við séum liðleskjur sem hugsi ekki um neitt nema eigin hag. Hvað veldur þessu? Hvað veldur því að nú sex árum eftir hrunið skulum við ekki vera komin lengra í að breyta samfélaginu eins og svo margir kölluðu eftir? Hvað getum við gert til að breyta því áliti sem almenningur virðist hafa á stjórnmálastéttinni og hvers er ætlast til af okkur?

Ég held að við getum öll verið sammála um að það er göfugt starf að vera stjórnmálamaður, einfaldlega vegna þess að það krefst þess að sá sem stundar það vinni að heill og hamingju þjóðar sinnar, hafi ætíð hugtakið almannaheill að leiðarljósi og hafi við allar ákvarðanir hagsmuni almennings sem viðmið. Við sem störfum í stjórnmálum eigum að halda í heiðri þær dyggðir og þau gildi sem sameina fólk frekar en sundra því, t.d. virðingu, heiðarleika, auðmýkt og ekki síst umburðarlyndi. Það felst meðal annars í því að hafa skilning á viðhorfum og þeirri ólíku sýn sem við höfum á hin margvíslegu verkefni sem við glímum við dagsdaglega. Mótmælin hér fyrir utan síðustu mánudaga hafa snúist ekki síst um þetta.

Hæstv. forseti. Að lokum ætla ég að leyfa mér enn og aftur að hvetja til þess að blásið verði til stóraukins samráðs milli ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþegasamtaka, fjármálageirans, fræðasamfélagsins og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið þjóðinni til handa. Það minnkar óvissu, það skapar frið og myndar traust í samfélaginu sem er svo sannarlega það sem við þurfum á að halda nú um stundir.