144. löggjafarþing — 34. fundur,  18. nóv. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Heilbrigðismál eru okkur flestum hugleikin, sérstaklega þessa dagana þegar verkföll lækna standa yfir og kallað er eftir byggingu nýs Landspítala. Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi í ræðu sinni í þinginu í gær að það væru fleiri heilbrigðisstofnanir í landinu en Landspítalinn þó að lítið færi fyrir umfjöllun um þær. Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru margar hverjar í mun verri stöðu en Landspítalinn þannig að úrbóta er víða þörf. Samkvæmt núgildandi fjárlögum fara ríflega 40% útgjalda ríkisins til velferðarmála eða um 267 milljarðar. Þróunin er okkur ekki hagfelld þar sem þjóðin er að eldast með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðarbúið og fólki með skerta starfsgetu er einnig að fjölga af ýmsum orsökum.

Staðan er slæm og útlitið er svart. Við viljum hafa gott velferðarkerfi en þurfum einhvern veginn að draga úr kostnaði. En hvað er til ráða, eru einhver tækifæri í þessari stöðu? Já, ég tel svo vera. Við eigum fyrst og fremst að leggja aukna áherslu á heilsugæsluna. Við höfum leyft henni að drabbast niður en hún er mikilvægur hornsteinn í heilbrigðiskerfi okkar. Við verðum einnig að leggja aukna áherslu á lýðheilsumál og forvarnir. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a. að bætt lýðheilsa og forvarnastarf verði meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar.

Til að framfylgja þeirri stefnu hefur forsætisráðherra stofnað nefnd um lýðheilsumál. Það er forsætisráðherra sem stýrir nefndinni en auk hans eiga heilbrigðisráðherra, félags- og húsnæðismálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra fast sæti í nefndinni. Samhliða stofnun ráðherranefndar var ákveðið að setja á fót ráðgefandi nefnd, lýðheilsunefnd, undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Meginhlutverk hennar er að vinna drög að heildstæðri stefnumótun og aðgerðaáætlun þar sem haft er að markmiði að efla og bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum. Nefndin skal skila heilbrigðisráðherra og ráðherranefndinni tillögum sínum í árslok 2015.

Góð lýðheilsa getur sparað heilbrigðiskerfinu milljarða og ég tel að þangað eigum við að stefna.