144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

afgreiðsla rammaáætlunar úr atvinnuveganefnd.

[10:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hryggilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, tala hér af steigurlæti fyrir þessari valdníðslu. Ég get sagt fyrir mig að ég var að búa mig undir að styðja tillöguna sem lögð hafði verið fram, um breytingu á einum virkjunarkosti, vegna þess að að mínu viti höfðu efnisleg rök verið færð fyrir þeirri breytingu.

Það er ótrúlegur átakavilji af hálfu þessarar ríkisstjórnar að vilja rjúfa alla mögulega sátt um virkjunarmál í landinu og færa umræðu um náttúruvernd og nýtingu aftur fyrir aldamót. Það er gríðarlega mikill ábyrgðarhluti af hálfu stjórnvalda að gera það.

Það voru efnisleg rök fyrir því, í ljósi umsagna sem bárust, að flytja ákveðnar virkjanir í biðflokk. Það var ekkert ákveðið varanlega um það, bara að frekari rannsóknir skyldu fara fram. Verkefnisstjórnin segir í dag að hún sé ekki tilbúin til að breyta þessu á efnislegum forsendum. Hverjir eru þá stjórnmálamenn (Forseti hringir.) þessa meiri hluta að grípa fram fyrir hendurnar á því verklagi sem hér var (Forseti hringir.) ákveðið með atkvæðum allra þingmanna með lögunum um rammaáætlun 2011?