144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

beiðni um fund með þingflokksformönnum.

[13:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir og byrja á því þar sem við þurfum greinilega að vera þakklát hæstv. forseta fyrir að ræða hér mál sem ekki kom frá ríkisstjórninni. Ég vil þakka honum það örlæti sem hann hefur sýnt með því að setja það á dagskrá í dag. En það breytir engu um þá staðreynd að það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast að þingið sé komið í uppnám. Það er við hv. formann atvinnuveganefndar, það er við formann Sjálfstæðisflokksins og það er við ráðherra Sjálfstæðisflokksins í þessari ríkisstjórn að sakast. Þeir köstuðu stríðshanskanum hingað inn. Við erum aðeins að biðja hæstv. forseta, náðarsamlegast, um að setjast niður með okkur og ræða það ástand sem er uppi. Þetta getur ekki verið svona snúið. Það getur ekki verið. Ég skil ekki þessa tregðu, af hverju menn geta ekki tímasett slíkan fund. Hvað býr þar að baki?