144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[13:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að í tillögum frá meiri hlutanum skuli vera leiðrétting á þeim mistökum sem áttu sér stað fyrir 3. umr. fjárlaga þessa árs í desember sl. Á einhvern óskiljanlegan hátt duttu þar þessar 30 milljónir niður sem fyrrverandi ríkisstjórn hafði sett inn.

Þetta er nauðsynlegur peningur til háskólans, það var rætt hér þegar frumvarpið var flutt, meðal annars við hæstv. fjármálaráðherra, og bent á þau mistök sem þarna hefðu verið gerð. Hér er það tekið til baka og þessar 30 milljónir settar inn sem ég vænti þá að séu komnar inn sem varanleg fjárveiting til Háskólans á Akureyri á næstkomandi árum.

Jafnframt vil ég geta þess að með því verður fylgst hvort í tillögum til 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2015 komi þær fjárlagabeiðnir, sem meðal annars eru þessar 30 milljónir plús aðrar, inn í tillögum til Háskólans á Akureyri og þá verði haldið áfram að leiðrétta þau mistök sem áttu sér stað á einhvern óskiljanlegan hátt við síðustu fjárlagagerð.