144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

fjáraukalög 2014.

367. mál
[14:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er svolítið skrýtið mál því að eins og alþjóð veit þá voru hér alþingiskosningar 27. apríl 2013. (Gripið fram í: Ha?) Þann 10. maí sama ár undirritaði fráfarandi menntamálaráðherra, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, samning við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra um 45% hækkun á launum til táknmálstúlka. (SSv: Nei, nei, nei, það var … gjaldskrár …)

Virðulegi forseti. Það varð til þess að þetta er eitt af þeim ótal mörgu málum sem fyrrverandi ríkisstjórn setti inn í kosningaloforðafjárlög 2013 og núverandi ríkisstjórn situr nú uppi með, því að þessi tillaga og aðgerð var, eins og margar aðrar, ófjármögnuð. Það er því með miklu stolti að núverandi ríkisstjórn bætir þann skaða sem gerður var í maí 2013 sem varð til þess að þeir sem þurfa að nota þessa þjónustu (Gripið fram í.) fengu ekki túlkaþjónustu. (Gripið fram í: Uss …) Því er það með gleði sem þessi breytingartillaga er sett hér inn.