144. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2014.

visthönnun vöru sem notar orku.

98. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að kynna nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku, með síðari breytingum.

Atvinnuveganefnd fjallaði um málið að nýju eftir 2. umr. í þinginu og fékk á sinn fund fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Mannvirkjastofnun.

Fjallað var um fjárhæð dagsekta allt að 500 þús. kr., sem Mannvirkjastofnun verður heimilt að beita verði frumvarpið að lögum. Umræður voru um það í nefndinni að þessi fjárhæð væri of há. Dagsektir eru þvingunarúrræði og þeim er beitt sem refsivendi á þann sem ekki fer að lögum. Þær eru ekki innheimtar fyrr en í lengstu lög, ef menn sýna vítavert gáleysi. Nefndin var að minnsta kosti sammála um að fjárhæð dagsekta í frumvarpinu væri of há og leggur því til að hámarkið verði 200 þús. kr.

Einnig var fjallað um innleiðingu annarra EES-gerða er varða vörur sem tengjast orkunotkun. Þar voru menn líka hófstilltari í dagsektaupphæð vegna þess að upphæðin 500 þús. kr. var upphaflega ákvörðuð til að vera í samræmi við svipaðar gerðir. Hærri dagsektir voru mest vegna vara sem geta verið hættulegar, sem varða öryggi o.s.frv., en það á ekki við um þessa gerð.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, með leyfi forseta:

„Í stað fjárhæðarinnar „500.000 kr.“ í 2. mgr. c-liðar 10. gr. komi: 200.000 kr.“

Hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.

Aðrir hv. nefndarmenn voru viðstaddir. Sá sem hér stendur, Jón Gunnarsson, formaður, og hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Björt Ólafsdóttir, Páll Jóhann Pálsson og Þórunn Egilsdóttir voru öll samþykk þessari breytingu.

Ég vona að að henni samþykktri verði málið afgreitt með þeim hætti.