144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég velti fyrir mér hvar maður eigi að byrja. Hér er eitt af höfuðmarkmiðunum að einfalda skattkerfið. Nú eru þingstörf þess eðlis að oft er erfitt að koma að nýjum sjónarmiðum í löngu máli nema einmitt þegar tækifæri sem þessi gefast til að viðra nýjar hugmyndir sem ekki hafa fengið forgang hjá þinginu við vinnslu þingmála. Skattafrumvörp eru þar engin undantekning heldur þvert á móti, ef eitthvað er, ég hef nefnilega tekið eftir því í störfum þingsins og þegar ég hef setið fundi fjárlaganefndar og þegar ég hef unnið með fjárlagagögn og frumvörp sem varða skatta, tekjur, prósentur og því um líkt að það er margt sem má bæta í því hvernig haldið er um vinnslu á svona málum almennt. Ég nefni þetta vegna þess að hér erum við sífellt að tala um einföldun skattkerfisins. Ég held því fram og vil nýta þetta tækifæri til að tala aðeins um hvernig ég tel hægt að einfalda skattkerfið þótt útfærslurnar á því séu ekki endilega einfaldar. Menn vilja kannski hafa þetta þannig að það sé auðveldara að lesa lagatextann sjálfan og átta sig á því hvernig hlutirnir virka, sem er einn þáttur af einföldun skattkerfisins.

Stundum velti ég fyrir mér hvað menn eigi nákvæmlega við þegar þeir tala um flókið. Ég þekki það svolítið úr hugbúnaðargeiranum að menn vilja hafa hlutina einfalda. Ég segi alltaf við þá að það geti verið mjög flókið að gera hlutina einfalda. Ef við erum með eitthvert verk sem er í eðli sínu flókið getur verið mjög flókið að gera það einfalt. Sem dæmi ef ég ætla að búa til ægilega góða vefsíðu sem getur gert alls konar flókna og erfiða hluti er ég enga stund að því ef notkunin má vera mjög flókin og erfið. Þá er ég enga stund að því. Þá bý ég bara til einhvers konar viðmót á hvaða svo sem sull sem ég er að vinna með. Ef það á hins vegar að taka flókið ferli, mikið af tölum og reikna þær á flókinn hátt og gera það á einhvern hátt einfalt fyrir notandann er það mjög flókið verk, dýrt og tekur langan tíma. Ég óttast að það sé sami misskilningur í gangi hér gagnvart skattkerfinu og er svo oft í hugbúnaðargeiranum, að halda að því einfaldara sem það er að nota eitthvað, því einfaldara sé að gera það. Menn eru oft að reyna að spara sér kostnað og tíma með þessu, ætla að búa til eitthvað einfalt þannig að það verði ekki dýrt og taki ekki langan tíma. Það er þveröfugt, það tekur langan tíma og er dýrt að gera hlutina einfalda. Það virkar kannski ekki þannig við fyrstu sýn en þetta er mjög algengur misskilningur.

Eins og fyrr greindi hef ég tekið eftir því að hér á bæ, á hinu háa Alþingi, er tölvutæknin ekki nýtt til fulls, langt því frá. Maður fær gögn á alls konar mismunandi sniðum, maður les frumvarp og það er vinna að finna út úr því hvaða áhrif það hefur á önnur frumvörp, ég tala nú ekki um þegar það eru frumvörp sem breyta þrennum öðrum lögum eins og þetta tiltekna frumvarp, þótt það sé reyndar tiltölulega einfalt, en að eiga við eitthvað eins og fjárlög og skattstofna er heljarinnar vinna. Ég vil meina að það væri hægt að draga verulega úr þessari vinnu ef fókus væri settur á það að finna einhvers konar heildræna mynd af því hvernig skattkerfið og útgjöld ríkisins eigi að virka í meginatriðum, sem ég tel mögulegt því að það er rík hefð fyrir því, og síðan að finna út einhvers konar umgjörð sem hægt er að nýta nútímatækni við til að auðvelda okkur starfið og gera alla þessa vinnu og umræðuna mun skilvirkari þannig að við vitum strax hvað gerist eða er líklegt til að gerast ef við breytum þessari prósentu svona eða hinni prósentunni öðruvísi.

Við höfum aldrei tekið þessa umræðu hér, kannski eðlilega, það er ekki mikið af hugbúnaðarsérfræðingum hér á bæ, en mér finnst mikilvægt að nýta tækifæri sem þessi til að minnast á þetta. Annars kemst þetta aldrei að.

Sömuleiðis má alveg nefna það að einfalt skattkerfi getur flækt hlutina fyrir fólki. Þetta er það sama og ég var að nefna með hugbúnaðinn. Það að eitthvað sé einfalt í notkun þýðir ekki að fyrirbærið sé einfalt, það þýðir ekki að það kosti minni tíma eða minni pening, það getur verið þvert á móti. Þegar við einföldum skattkerfið getum við flækt líf fólks. Þá fer ég aðeins út í það sem vonandi elur af sér meiri umræðu og það er að við þurfum svolítið á hinu háa Alþingi, í þessari umræðu, að handstýra því hvað við teljum gott í samfélaginu og hvað við teljum vont í samfélaginu, alls konar spurningar um gildismat og í raun og veru geðþótta þegar allt kemur til alls, þegar kemur að skattkerfinu. Nú hefur verið sagt hér að undanþágur frá virðisaukaskatti séu óskilvirkar, sem ég vænti að sé hárrétt, en það er þó nokkuð mikið af undantekningum, þó nokkrir flokkar sem eru undanþegnir virðisaukaskatti. Þar er til dæmis þjónusta sjúkrahúsa, fæðingarstofnana, heilsuhæla og annarra hliðstæðra stofnana, svo lækningar, tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta, félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila, upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta. Þetta er allt þjónusta og hluti af samfélagi okkar sem við getum verið sammála um að sé mikilvæg. Þetta eru mikilvægir þættir af okkar mannlega samfélagi. Við getum alveg forgangsraðað að miklu leyti í samræmi við það vegna þess að við þurfum öll tannlækningar, mat o.s.frv. Svo er hérna enn þá meira: Íþróttastarfsemi, svo sem leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi. Ég hef ekkert á móti íþróttum, svo lengi sem ég þarf ekki að taka þátt í þeim sjálfur, en ég velti fyrir mér, ef við ætlum að fara að setja íþróttastarfsemi þarna vegna þess að það er svo heilsusamlegt er ýmislegt annað sem er heilsusamlegt sem við gætum líka viljað setja þarna. Og hvernig ætlum við að vega og meta það? Ég veit það ekki, ég held ekki að neinn viti það, ég held að þegar allt kemur til alls fari það mikið til eftir geðþótta, einhvers konar samfélagslegri meðvirkni með því hvað þykir mikilvægast akkúrat núna í dag, hvað á morgun. Það er fleira, það eru fólksflutningar, flutningur á ökutækjum með ferjum sem er í beinum tengslum við fólksflutninga. Þetta er samkvæmt lögunum. Og af hverju er það? Vegna þess að það er svo mikilvægt. En ekki mikilvægt að borða? Af hverju er ekki matur á þessum lista til dæmis? Mér þykir öll þessi forgangsröðun óljós, svo meira verði ekki sagt. Sömuleiðis er hér póstþjónusta, hún er undanþegin, vátryggingastarfsemi er undanþegin, happdrætti og getraunastarfsemi er undanþegin af mér mjög óljósum ástæðum o.s.frv.

Síðan er einnig í lögunum eitthvað sem ég er mjög hlynntur sjálfur: Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi. Fyrr í dag var mikið rætt um það að eðlilegt sé að við höfum lágan, jafnvel engan, virðisaukaskatt á bókum til dæmis vegna þess að við erum mikil bókmenntaþjóð. Sömuleiðis skuldum við bókmenntum tunguna okkar, það er þannig.

Það leiðir mig yfir í þriðja punktinn sem ég vildi nefna og það er íslensk tunga. Ef það er ekki augljóst, ef það eru ekki fréttir enn þá fyrir hið háa Alþingi, þá er íslenska tungan í útrýmingarhættu. Það er ekki bara tölvutæknin, það er líka vegna þess að við búum í alþjóðlegra samfélagi. Íslendingar ferðast meira erlendis, útlendingar ferðast meira hér. Það er auðveldara og auðveldara að tala ensku, það er erfiðara og erfiðara að finna íslensk orð yfir hugtök sem við erum vön á ensku eða jafnvel öðrum málum. Þess vegna er grundvallaratriði, að því gefnu að við ætlum að halda í íslenska tungu, að við borgum fyrir hana. Við getum ekki búist við því að íslenskan verði til staðar eftir 100 ár ef við erum ekki reiðubúin til þess að borga fyrir hana. Við þurfum að borga fyrir hana, ekki aðeins með því að fjárfesta í hugbúnaði á íslensku, þótt við þurfum að gera það líka, heldur einnig með því að rækta þá þætti hefðbundins menningarlífs sem bera ábyrgð á því að við höfum enn þá íslenskuna og, lofið guð, höfum hana áfram. Þar á meðal eru bókmenntir, kannski augljósasta dæmið vegna þess að bókmenntir hafa verið við lýði svo ofboðslega lengi. En það er fleira, það eru kvikmyndir. Kvikmyndagerð í dag vil ég meina að beri mikla ábyrgð gagnvart því að halda í íslenska tungu til lengri tíma, vegna þess að kvikmyndir eru nútímabókmenntir á ákveðinn hátt.

Það sama má segja um listir eins og tónlist. Þá þurfum við að borga, við getum ekki látið eins og íslenskan muni lifa einungis vegna þess að við viljum það. Það kostar peninga, það getur kostað fórnir. Það mun kosta fórnir, eins og það að við getum ekki endilega hækkað virðisaukaskatt á bækur eða kvikmyndir eða önnur menningarverðmæti án þess að búast við því að það komi niður á íslenskri tungu. Þá þurfum við að spyrja okkur: Er það eitthvað sem við viljum forgangsraða ofar en til dæmis íþróttastarfsemi? Er ekki íslenska tungan mikilvægari en íþróttir? Ég spyr. Mér finnst það, kannski finnst öðrum það ekki. Aftur komum við að því að að miklu leyti eru þetta geðþóttaákvarðanir eða jafnvel frekar spurning um gildismat.

Þetta eru spurningar sem mér finnst ekki útræddar á hinu háa Alþingi eða í samfélaginu í heild sinni, sem gerir það erfiðara að búa til einhvers konar heildræna sýn yfir það hvernig við ætlum að hafa skattkerfið til mjög langs tíma í meginatriðum.

Það er eins og hv. 7. þm. Suðvest. nefndi áðan, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, við höfum ekkert útkljáð hvernig við ætlum að haga virðisaukaskattskerfinu. Upp á síðkastið, sérstaklega þegar kemur að ferðaþjónustunni, hefur verið mikið hringl með skattkerfið, við höfum ætlað að gera eitt og síðan hætt við það og eitthvað svona og þótt hver iðnaður geti vissulega grenjað úr sér augun í hvert sinn sem hann þarf að borga hærri skatta verður maður nú að sýna því samúð gagnvart ferðaþjónustunni, og kannski öðrum iðnaði, að þetta hringl er óþolandi. Við þurfum langtímahugmynd um það hvernig við ætlum að hafa þetta í meginatriðum, en þá þurfum við að kunna að forgangsraða, þá þurfum við að vita nákvæmlega hverju við eigum að forgangsraða svona og hinsegin. Mér hefur löngum verið óljóst, kannski sökum þekkingar- og reynsluleysis, hvers vegna það er einfaldara að hafa 12% skatt og 24% skatt en 7% og 25,5%. Fyrir mér eru þetta aðeins tölur, ég vænti þess fastlega að tölvur reikni þetta út. Ég skil aðeins betur hvernig það getur verið óskilvirkt þegar kemur að því hvaða áhrif þetta hefur á neyslu almennings. Ég mundi skilja það en þegar kemur að flækjustigi af því að eiga við skattana, stimpla inn í kassann og reikna það út, skil ég ekki hvernig það á að hafa áhrif á flækjustigið í sjálfu sér og sömuleiðis þegar kemur að því að hafa fleiri en tvö skattþrep, sem er víst ægilegt tabú að stinga upp á, kannski skiljanlega, þá skil ég ekki alveg hvers vegna það á að vera svo miklu flóknara. Eini munurinn sem ég sé er í raun og veru sá að maður er með þrjá flokka í staðinn fyrir tvo að velja um.

Svo má alveg færa rök fyrir því að við séum raunverulega með þrjú skattþrep, við séum með 0%, 7% og 25,5%, þ.e. ef við tökum með sem skattþrep þá þætti sem eru undanskildir virðisaukaskatti. Það má líta þannig á, tel ég. Ég lít ekki svo á að við værum að flækja neitt í sjálfu sér til dæmis með því að setja mat með í hið eiginlega 0% þrep, þ.e. undanskilja mat frá virðisaukaskatti yfir höfuð. Annars hefur hv. 10. þm. Reykv. s. og ágætur kollegi minn farið nánar út í útfærslur þess efnis að koma til móts við þá hækkun sem fyrirsjáanleg er af hækkun virðisaukaskatts úr 7% í 11%, þ.e. ef breytingartillögur hv. nefndar ná í gegn, og síðan auðvitað hækkun upp í 14% seinna meir.

Ég tek eftir því að það er í raun og veru sama hvað maður gerir hér á þinginu, eins og ég sagði áðan koma gögnin til manns á mjög misjöfnu sniði, oft þannig að það er erfitt að mata þetta inn í tölvu. Þá vil ég benda á að það eru tveir hlutir sem má einfalda að mínu mati, annars vegar hvernig farið er með skattaútreikninga og allt það inni í kerfinu sjálfu, hjá ríkisskattstjóra, verslunareigendum o.s.frv., en það er líka hvernig við förum með frumvörpin hér, hvernig við förum með þingmál okkar sem varða þá hluti. Það er tvennt ólíkt. Ef maður ætlar að taka ákvarðanir er best að sjá fyrir hverjar afleiðingarnar eru og það er ekki endilega hlaupið að því þegar vinnugögnin eru þess eðlis að erfitt er að mata þetta inn í tölvu. Það er erfitt að sjá í frumvarpi og lesa það einfaldlega og sjá fyrir hvaða áhrif það hefur á hina og þessa anga hér og þar í lagabálkinum. Þetta, alla vega fyrir mér, ber ábyrgð á talsverðum tíma, talsverðri vinnu í mínu starfi. Ef ég ætti að kynna mér til hlítar eitthvað eins og fjárlögin er það miklu meiri vinna en ef um væri að ræða gögn sem kæmu á almennilegu sniði. Það er auðvelt að segja svona sem hugbúnaðarmaður á hinu háa Alþingi en ég fullyrði að ef þingmenn almennt áttuðu sig á því hvað er hægt að gera margt auðveldara í starfi okkar þegar kemur að lögum um skatta og tekjustofna, útgjöldum o.s.frv. mundu þeir velta fyrir sér hvernig í ósköpunum mönnum hafi dottið í hug að gera þetta upp á gamla mátann. Þetta er gríðarleg vinna miðað við það sem þarf að vera, fullyrði ég. En það er bara annar hængurinn, hinn hængurinn er síðan það sem hægt er að gera fyrir viðskiptalífið.

Þegar kemur að útreikningum skatta ímynda ég mér að flækjustigið sem fólk er að tala um sé fyrst og fremst flækjustig fyrir ríkið, að reikna þetta út, innheimta skattinn, öll pappírsvinna og allt sem því viðkemur. Síðan er auðvitað flækjustigið fyrir þá sem veita þjónustu og vörur, þá felst það væntanlega aðallega í því að innleiða skattbreytingarnar hjá sér, merkja það í einhverjum kerfum og kössum hjá sér hvort um sé að ræða 11% eða 12% skatt og síðan auðvitað að tilgreina hvaða vörur tilheyri hvaða skattþrepi. Þetta eru leysanleg vandamál, þetta er meira að segja, alla vega þessi einstaki liður, tiltölulega auðveldlega leyst ef það væri fókusinn. En það er ekki fókusinn vegna þess að við erum enn þá svolítið að vinna hlutina á gamla mátann, þori ég að leyfa mér að stinga upp á. Ég hef auðvitað aðeins unnið hér í eitt og hálft ár og þekki ekki til hlítar öll þau vandamál sem gætu komið upp við að reyna að beita nútímatækni betur. Ég þekki það hins vegar í starfinu að þá væri það undantekning frekar en nokkuð annað ef svo hefði verið gert að einhverju ráði, alla vega hér á bæ. Svo er náttúrlega annað mál að ríkisskattstjóri nýtir tæknina mjög mikið og með góðum árangri. Reyndar á hann hrós skilið fyrir að hafa nýtt hana mjög vel, enda sér maður hvað það getur gert mikinn mun þegar ríkisskattstjóri tekur upp á því að bjóða upp á rafræn skil á skattskýrslum. Þá verður allt miklu auðveldara, það er raunverulega einföldun en það er ekki endilega einfalt að innleiða það, ekki endilega. Það getur verið það en það er það ekki endilega.

Ef við einbeittum okkur jafn mikið að því að gera þetta starf einfalt held ég að við gætum gert það sama fyrir lagasmíðina sjálfa og við erum búin að gera fyrir skattgreiðendur gagnvart því að gera grein fyrir tekjum sínum og þeim þáttum sem ákvarða skatta. Þegar kemur að einföldun skattkerfisins eigum við ekki bara að horfa á töluna sjálfa eða nákvæmlega hversu margar þær eru. Það eru miklu fleiri þættir að mínu mati sem ákvarða heildarflækjustig kerfisins og næstum því ekkert af þeim, fullyrði ég, hefur komist til tals hér vegna þess að við sjáum það ekki. Við getum ekki séð það vegna þess að við erum ekki að ræða það og við tökum ekki tillit til þess, alla vega ekki í þessari umræðu.

Þetta nefni ég núna aðallega vegna þess að hér er tækifæri til þess að ræða það ítarlega, það gefst ekki á hverjum degi. Ég þekki ekkert form umræðu hér þar sem hægt er að taka tíu mínútur í að útskýra einhverja hugmynd, það er ekki hægt í sérstökum umræðum, það er ekki hægt í störfum þingsins, það er eiginlega einungis hægt við tilefni sem þetta, þegar við erum að ræða eitthvað eins og virðisaukaskatt. Allt eru þetta auðvitað vangaveltur þegar allt kemur til alls, en ég held að það sé alveg hollt að við ræðum þetta þegar kemur að þeim þingmálum sem varða skatta, tekjur o.s.frv.

Ég tel einnig að heppilegt sé að hv. efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta aftur til umfjöllunar, þá sérstaklega til að skoða hvers vegna ekki sé hægt að setja mat inn í þær undanþágur sem eru þarna til staðar. Það er ansi mikið af undanþágum, 13 eða 14 ef ég man rétt, já, 14. Þetta er upptalið í lögum um virðisaukaskatt og matur er eitthvað sem ég hefði haldið að væri frekar auðvelt að bera kennsl á fyrir utan þessi sykurmál öllsömul. Ég sé ekki alveg hvar flækjustigið á að vera, sérstaklega ekki þegar kemur að matvörubúðum sem eru með mjög þróuð kerfi og ættu alveg að geta dílað við þetta. Ég sé ekki fyrir mér hvernig þetta ætti að vera flókið í útreikningi, ég sé ekki, ef ég á að segja alveg eins og er, hvar flækjan er, auðvitað með þeim fyrirvara að ég hef aldrei unnið við skattaútreikninga og veit ekkert í sjálfu sér hvernig þetta lítur út á borði ríkisskattstjóra. Ætli ég sé ekki búinn að gera einhvern hv. hugbúnaðarmanninn brjálaðan með þessari ræðu nú þegar. En þá er það eitthvað sem við eigum að taka á og ræða um á þeim forsendum að reyna að einfalda skattkerfið og ekki aðeins einstakar tölur sem við sjáum hér sem tölvunördar heldur frekar sem fólkið sem ákveður þetta. Það er gríðarlega mikilvægt að starf okkar sé sem skilvirkast. Mér finnst við stundum byrja svolítið á röngum enda. (Forseti hringir.)

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.