144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er orðið einhvers konar mynstur að fara með öfugmæli í samhengi við þá fjárlagagerð sem nú stendur yfir. Rétt áðan sagði formaður þingflokks Framsóknarflokksins að það ætti að auka niðurgreiðslu lyfja. Hið rétta er að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga um 305 milljónir en mótvægisaðgerðin felst í því að nú á bara að auka kostnaðarþátttöku sjúklinga um 155 milljónir. Það er byrjað á því að ákveða að skera niður og síðan er það kallað mótvægisaðgerð þegar minna er skorið niður.

Fyrir kosningar gáfu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur mjög fögur fyrirheit um að leiðrétta kjaragliðnun sem lífeyrisþegar hefðu mátt þola, enda þurftu þeir að taka á sig niðurskurð eins og allir aðrir í fjárlögum. Það var mjög erfitt tímabil en nú er búið að flytja víglínuna. Í staðinn fyrir að verja það að verið sé að svíkja kosningaloforðin og ekki að leiðrétta þessa kjaragliðnun er lækkuð verðlagsuppfærsla á bótunum á milli umræðna þannig að í staðinn fyrir að bæturnar hækki um þau smánarlegu 3,5% sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu eiga þær núna að hækka um 3%. Samkvæmt lögunum eiga þær að hækka í samræmi við þróun launa en að lágmarki við neysluverðsvísitölu. Hér er hangið í lágmarkinu en flokkunum sem hér stjórna landinu er að takast að færa víglínuna í þessu máli eins og (Forseti hringir.) öðrum. Við í minni hlutanum ætlum ekki að láta það gerast.