144. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns olli vonbrigðum. Ég átti von á því að hér yrði um málefnalegri umræður að ræða heldur en kom fram hjá hv. þingmanni og mun ég fara nánar í einstök atriði seinna í ræðu minni.

Ég ætla þó í fullri alvöru, og horfi ég hér á glottandi hv. þingmenn Samfylkingarinnar, að spyrja hv. þingmann úr því að hv. þingmanni og Samfylkingunni og VG er allt í einu orðið svo umhugað um greiðsluþátttöku sjúklinga: Af hverju studdi hún það að sú vinna sem búið var að vinna lengi, þverpólitísk vinna undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals um greiðsluþátttöku sjúklinga, af hverju var eitt af fyrstu verkum síðustu ríkisstjórnar sem hv. þingmaður studdi og sat í að henda þeirri vinnu? Ef hv. þingmaður og hv. þingmenn VG og Samfylkingarinnar eru í alvöru á því að við eigum að hafa lágt hlutfall og reyna að vernda þá sem eru veikastir fyrir kostnaðarþátttöku, þá hefðu þeir haldið áfram og klárað það verk sem hefur fyrirmyndir sínar frá hinum Norðurlöndunum, sem stundum er talað um sem hin fullkomnu ríki.

Reyndar er það þannig að ef við skoðum kostnaðarþátttökuna jókst hún verulega í tíð síðustu ríkisstjórnar. Reyndar er það þannig að ef við skoðum, af því við erum að tala um heilbrigðismálin, framlögin til heilbrigðismála þá hafa þau bæði hækkað í tölum og prósentum, m.a. sem hlutfall af ríkisútgjöldum, í stuttri tíð þessarar ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Ég spyr eftir þessa miklu ræðu um kostnaðarþátttöku sjúklinga: Af hverju var það eitt fyrsta verk síðustu ríkisstjórnar að stúta þeirri vinnu sem var hafin þegar kom að því að vernda þá sem veikastir eru fyrir kostnaðarþátttöku? (GuðbH: Helmingurinn kláraði … )