144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að það er svo mikilvægt að þessi tekjustofn sé eins sjálfstæður og mögulegt er og hann skili sér til Ríkisútvarpsins, þannig að það geti í raun og veru gert sínar áætlanir, að tekjuflæðið til Ríkisútvarpsins geti verið fyrirsjáanlegt af því þetta er fjölmiðill, af því það eru ekki sömu deilur sem gilda um aðrar hefðbundnari ríkisstofnanir. Þetta er í raun og veru flóknari staða en fylgir því jafnvel að vera hluti af dómstólunum því að hér erum við að tala um þetta óskilgreinda fjórða vald sem er hverju lýðræðissamfélagi sérstaklega mikilvægt en sem nýtur samt ekki þeirrar verndar í lögum sem framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald njóta þegar kemur að fjárveitingum. Þetta er hin flókna staða.

Því miður hefur okkur ekki lánast að ná sátt um þetta. Það var gerð tilraun til þess hér vorið 2013. Því miður hefur talsvert af þeirri lagasetningu verið tekið aftur, bæði hvað varðar mörkunina og hvað varðar skipun stjórnar sem átti að reyna að fjarlægja hinu pólitíska valdi þá.