144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að það hefði verið gott að hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins hér því að við köllum eftir því hvaða stefnu þeir vilji fylgja varðandi rekstur heilbrigðiskerfis og menntakerfis. Framsóknarmenn ættu í ljósi orða hæstv. forsætisráðherra að vera hér fagnandi með róttækri rökhyggju, rökræðum og jákvæðni, en það ber lítið á því.

Varðandi almennu lífeyristryggingarnar þá kom ég reyndar allt of lítið inn á þær í ræðu minni og hafði hugsað mér að nýta næstu ræðu meira í þær sem og fæðingarorlofið. Samkvæmt lögum eiga lífeyristryggingar að hækka árlega. Það er ákvarðað í fjárlögum. Taka á mið af launaþróun í landinu svo að kaupmáttur lífeyrisþega dragist ekki aftur úr, a.m.k. eiga lífeyristryggingar að hækka til samræmis við verðlag. Þegar farið er yfir þróun kjara, sérstaklega örorkulífeyrisþega, þá hafa þeir ekki haldið í við aðra. Kaupmáttaraukning þeirra hefur að jafnaði verið minni en annarra hópa. Ef við lítum til lágmarkslauna er mikill munur þar á.

Fyrir síðustu kosningar töluðu allir flokkar fyrir því að vinna á þessari kjaragliðnun. Hverjir töluðu hæst og voru yfirlýsingaglaðastir í þeim loforðum? Það voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur. Hvað gerðist? Öryrkjabandalagið tók loforð þeirra upp á vídeó. Þegar vídeóið var sýnt í aðdraganda fjárlaga urðu viðkomandi þingmenn móðgaðir. Þeir gera sér grein fyrir því að (Forseti hringir.) þeir eru að svíkja gefin kosningaloforð (Forseti hringir.) og reyna að koma skömminni yfir á (Forseti hringir.) Öryrkjabandalag Íslands.