144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hún tæpti á ansi mörgum atriðum þar sem ég deili áhyggjum hennar. Mig langar að taka undir orð hennar þegar hún sagði að þetta væri galin leið til að reka samfélag. Því er ég svo sannarlega sammála og finnst þetta fjárlagafrumvarp lýsa algjörlega galinni leið.

Ég vil líka taka undir það að ég deili áhyggjum þingmannsins af heilbrigðismálunum og aukinni greiðsluþátttöku fólks þar. Mig langar í því samhengi að ræða aðeins stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar. Í þessari umræðu hefur talsvert verið talað um lýðheilsumál og jafnvel lýðheilsumál barna og þar hef ég mjög miklar áhyggjur af barnafátækt, sem er vaxandi og má í raun segja að það sé eitt risavaxið lýðheilsumál. Því að hvað er verra lýðheilsu barna en það að alast upp í fátækt?

Mig langar að heyra sýn hv. þingmanns á þetta og kannski einmitt í samhenginu, eins og hún kom inn á í ræðu sinni áðan, sem er hækkun á sköttum á hollan mat versus það að afnema vörugjöld sem þá leiðir til þess að sykurskattur fellur niður. Hvaða áhrif sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta hafi í framtíðinni og á börn og þá sérstaklega fátæk börn? Hvers konar samfélag erum við að skapa þeim?