144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hann kom inn á marga punkta. Ég get verið honum hjartanlega sammála um mjög margt.

Ég hjó sérstaklega eftir umræðu hv. þingmanns um málefni útlendinga og þess kerfis sem við höfum til þess að taka á móti eða ef vill ekki taka á móti útlendingum á Íslandi. Ég skildi þingmanninn sem svo og er honum innilega sammála um það að þeir útlendingar sem flytja hingað til lands eru mikið tækifæri fyrir íslenskt samfélag. Það skiptir okkur miklu máli sérstaklega í samhengi og samkeppni við aðrar þjóðir að íslenskt samfélag verði fjölbreyttara og breiðara. Ég get tekið undir með mörgum sem hafa minnst á það að íslenskt samfélag mundi verða sterkara og jafnvel skemmtilegra ef hér byggi svona þrisvar, fjórum, fimm sinnum fleira fólk.

Hv. þingmaður minntist á það að nú er verið að auka lítillega fjárveitingar til Útlendingastofnunar, en samt verður að segjast eins og er að fjárveitingar í þessum málaflokki eru ansi þröngar og hafa verið skilgreindar meira eftir á, eftir því hvaða kostnaður er til kominn af þjónustu við hælisleitendur og útlendinga sem hingað koma. Mig langaði að fá álit þingmannsins á því hvort ekki sé ástæða til þess að slá hressilega í klárinn og bæta í.