144. löggjafarþing — 43. fundur,  8. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:36]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú í dag hafa rúmlega 200 íslenskir læknanemar á 4., 5. og 6. ári skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki sækja um stöður kandídata eða aðstoðarlækna á heilbrigðisstofnunum landsins fyrr en samningar nást á milli ríkis og lækna. Svo það sé öllum ljóst þá er þetta í fyrsta skipti sem læknar á Íslandi fara í verkfall. Þeir sem eru nokkru eldri en ég í þessum þingsal muna eflaust eftir því hvernig þetta var í denn. Þá voru verkföll tíð, en læknar fóru ekki í verkfall.

Staðan í heilbrigðiskerfinu núna, hvað varðar biðlista og faglega starfsemi, er enn góð. Við fáum enn hæstu einkunn á alþjóðlega vísu. Það er vegna þess að við höfum enn sérfræðinga, við búum að gamalli tíð, en við erum að missa af kynslóðunum. Nú hafa kandídatar sagt að þeir ætli ekki að sækja um störf. Í frétt á vísir.is kemur fram, með leyfi forseta:

„Þetta er um 40 prósent af öllum stöðugildum lækna sem hafa ekki sérfræðimenntun. Þetta myndi því hafa gríðarleg áhrif á daglega starfsemi spítalans.“

Það kom skýrt fram í kosningabaráttunni hjá stjórnarflokkunum að mannauðurinn væri helstu verðmætin í heilbrigðiskerfinu. Það sem hefur komið skýrt fram núna hjá kjósendum allra flokka í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Pírata í nóvember var að heilbrigðiskerfið ætti að vera í forgangi. 90% landsmanna vildu setja það í 2. eða 1. sæti. Menntunin var þar á eftir með 44%. Það er afgerandi vilji landsmanna að heilbrigðiskerfið skuli vera í forgangi. Stjórnarflokkarnir sögðu sjálfir fyrir kosningar að mannauðurinn væri grundvallarþátturinn, væri raunverulegu verðmætin í heilbrigðiskerfinu. Nú stöndum við frammi fyrir því að (Forseti hringir.) missa mannauðinn og að hann endurnýist ekki.

Hvað finnst þingmanninum um þetta? Getum við afgreitt fjárlög (Forseti hringir.) meðan ríkið hefur ekki samið við lækna?