144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

samningar við lækna.

[14:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar réttilega er sagt að 90% landsmanna vilji setja þetta þjónustukerfi okkar í forgang á grunni þeirrar könnunar sem Píratar létu gera þá er það hárrétt. Ég held að allir skynji þann mikla vilja. En þegar sagt er að ekki virðist vera nægir fjármunir settir inn í kerfið þá veltur það líka dálítið á þeirri umræðu og þeirri tilfinningu sem er í loftinu hverju sinni. Ég bendi til dæmis á að samkvæmt frumvarpi til fjárlaga næsta árs þá hefur aldrei á síðustu árum verið sett meira fé inn í íslenska heilbrigðisþjónustu en samkvæmt því sama frumvarpi. Aldrei. (Gripið fram í.) Aldrei verið sett jafn mikið fé á fjárlögum til íslenskrar heilbrigðisþjónustu eins og í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Það virðist engu að síður ekki vera nægjanlegt.

Vandinn í kjarasamningum lækna er sá að þar eru menn og verða eðlilega, bæði samninganefnd ríkisins (Forseti hringir.) og lækna, að setja kaupkröfurnar líka í samhengi við aðra þætti þjóðfélagsins. Þar liggur sú klemma sem er, því það liggur (Forseti hringir.) fyrir að engin sátt er hjá aðilum vinnumarkaðarins fyrir því (Forseti hringir.) að ná samkomulagi um að (Forseti hringir.) setja eina stétt umfram aðra í launabaráttu. Því miður.