144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega augljóst að það mun bitna á fólki sem er 25 ára og eldra, sem vill fara í bóknám og sem á heima úti á landi og hefur ekki fjármagn til þess að koma sér í skóla annaðhvort hjá Keili eða Bifröst. Sumir þurfa auðvitað byrja á símenntunarstofnununum en slíkar stofnanir fá ekki fjármagn til þess að taka við þeim.

Mér sýnist því stefnan vera sú að setja þetta fólk bara út á guð og gaddinn, það á ekki að komast í nám. Eitt mun skaða sveitarfélögin heilmikið og það er að nú mun stór hópur kvenna á landsbyggðinni ekki komast í bóknám. Hér er um að ræða konur sem eru eldri en 25 ára og vilja fara í bóknám, þær verða kennarar, þær verða sjúkraliðar, hjúkrunarfræðingar o.s.frv. og halda uppi þjónustu við börn og eldri borgara í sveitarfélögunum. Nú er búið að loka fyrir þann augljósa kost í opinbera skólakerfinu og það er óásættanlegt með öllu.