144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta yfirferð, sérstaklega yfir þær breytingar sem minni hluti fjárlaganefndar leggur fram. Hún ræddi um beinar greiðslur fólks sem þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu og mun þurfa að greiða fyrir, þ.e. hækkun um 1,9 milljarða sem er áætlað að fólk þurfi að greiða sjálft á næsta ári.

Það er náttúrlega ekki nóg með að þessi ríkisstjórn neiti sér um alls konar stóra tekjustofna, ég held að manni geti talist til að hún hafi minnkað tekjustofnana um 30 milljarða á ári. Hún hefur hins vegar mikla löngun til að láta þá borga sem njóta eins og ég held að hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir hafi sagt um náttúrupassann. Mér finnst það endurspeglast í þessu frumvarpi og í gjörðum ríkisstjórnarinnar að minnka eigi sameiginlega sjóði okkar og láta einstaklingana greiða fyrir sjúkraþjónustu, núna fyrir náttúrupassa og ýmislegt annað. Ég held að þetta muni hafa vondar afleiðingar fyrir samfélag okkar. Ég óttast að það fari að koma meira af þessu, að fólk þurfi kannski að fara að greiða (Forseti hringir.) fyrir að liggja á spítölum líka, sem okkur tókst að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) fyrir ári síðan.