144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[22:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ef það sé eitthvað sem sameinar okkur í stjórnarandstöðunni í umræðu um fjárlög sé það nákvæmlega það að við viljum aðrar áherslur hvað varðar tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og að því leyti sem fjárlagafrumvarpið hefur áhrif á hana þá eigum við að nýta það til þess að draga úr því bili sem er í þjóðfélaginu milli tekjulægsta fólksins og þeirra sem búa við góð kjör. Þá eru það náttúrlega öryrkjarnir og hinir atvinnulausu sem við eigum að horfa fyrst til. Það er ekki nóg með að ekki sé verið að hækka þessa greiðslu almannatrygginga eins og vera bæri heldur er líka verið að stytta atvinnuleysistímabilið, fara með það úr þremur árum niður í tvö og hálft, sem þýðir tekjulækkun hjá langtímaatvinnulausu fólki í hálft ár, auk þess sem það setur auknar (Forseti hringir.) byrðar á sveitarfélögin, sérstaklega þau þar sem er mikið atvinnuleysi.