144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki hlustað á ræðurnar hér um tekjuöflun og horfir á stjórnarskrána frekar en veiðileyfagjaldið til að afla fjár til háskólanna.

Ég ætlaði að gera grein fyrir atkvæði mínu varðandi Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og kvarta yfir því að í þessum tillögum felst engin lausn á vanda þess skóla. Það er algjört stefnuleysi sem þar hefur ríkt, það hefur mistekst að ná sátt um hvernig byggja eigi upp þessa mikilvægu starfsemi á Hvanneyri og það er ljóst að þeir peningar sem þarna kemur tillaga um duga engan veginn til að rétta við rekstur þessa skóla og tryggja honum einhverja framtíð.

Á sama tíma og ákveðnu fjármagni var bætt við var skorin niður af atvinnuvegaráðuneytinu sambærileg upphæð hvað varðar rannsóknir. Ég treysti mér ekki til þess að greiða þessu atkvæði, einfaldlega vegna þess að hér er allt of lítið og ómarkvisst skref stigið. Ég hvet þingheim til að fara að skoða af fullri alvöru stöðu þessara mikilvægu atvinnuvegaskóla, nýrra háskóla sem aldrei hafa hlotið fjármögnun í samræmi við það sem lagt var af stað með í upphafi. Ég sit hjá.