144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:36]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa gert fjarveru hæstv. forsætisráðherra að umtalsefni hér. Hann er ekki einu sinni með skráða fjarvist á vef Alþingis. Sú skýring var gefin á þingflokksformannafundi í gær, þegar við ræddum þetta mál, að hann mundi mæta til starfa hér í dag. Það er með ólíkindum að menn geti ekki fylgt aðalmáli ríkisstjórnarinnar úr hlaði með því að vera viðstaddir umræðu og þá löngu og ströngu atkvæðagreiðslu sem við höfum tekið þátt í.

Svo vil ég líka rétt í restina — menn hafa gert að umtalsefni og komið hingað í kapphlaupi upp í ræðustólinn til að verja sjónvarpsstöðina ÍNN sem ég gerði að umtalsefni í einni skýringu minni. Það vill svo til að mér þykir fiskabúrið í Vesturbæjarlauginni skemmtilegra áhorfs en sú stöð en hitt er annað mál að í gegnum tíðina hafa sjálfstæðismenn, að minnsta kosti þegar ég starfaði hjá einkarekinni sjónvarpsstöð úti í bæ, ekki sparað stóru orðin þannig að, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir: Kanntu annan?

(Forseti (EKG): Forseti vill árétta að við erum hér að ræða um fundarstjórn forseta en ekki um óskyld mál.)