144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

422. mál
[23:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna og ég fagna því máli, ég held að það sé gott mál.

Ég streðaði dálítið við það sjálf að fá atbeina fjárveitingavaldsins til þess að skilja mikilvægi þess að þarna þyrfti meiri peninga til að vinna upp hala o.s.frv. þannig að ég fagna málinu. Mig langar til að spyrja ráðherrann bara fyrir forvitnissakir vegna þess að Árósasamningurinn var fullgiltur hér með lögum árið 2011 og við renndum nokkuð blint í sjóinn varðandi það hvort sú fullgilding hefði í för með sér mikla fjölgun mála. Sumir óttuðust að kæruheimildin sem þar var opnuð, þó að hún væri nokkuð takmarkaðri en lagt var til í því frumvarpi sem ég lagði fram á sínum tíma, hefði samt sem áður í för með sér ákveðinn möguleika á því að komið gæti töluverður fjöldi af málum inn vegna Árósasamningsins.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Getur hann getur nefnt þar einhverjar tölur? Í öðru lagi: Hvernig er málastaðan og hversu langan tíma sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það taki að vinna upp þann hala sem þarna er? Hvað telur hæstv. ráðherra að það muni taka langan tíma að nefndin verði komin með skaplegan afgreiðslutíma?