144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[12:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Össur Skarphéðinsson í þessari umræðu. Mér finnst röksemdafærslan gagnvart því að fella niður sykurskattinn ekki ganga upp. Hv. þingmaður nefnir hér að það þurfi að uppfræða vegna þess að þessi vara valdi skaða. Við erum sammála um það. Hann telur að það þurfi að fara þá leið að fræða, það hafi gengið svo vel að draga úr tóbaksreykingum með fræðslu. En tóbak er líka gjaldlagt og skattlagt mjög hátt. Það stemmir ekki að menn ætli að fara að fræða um skaðsemi vöru á sama tíma og þeir ætla að draga úr skattlagningu á þá sömu vöru. Ég fæ þetta ekki til að ganga upp. Það er hins vegar alveg rétt að auðvitað breytist neyslan ekki strax með svona skattlagningu. Það má telja að sykurinn sé ávanabindandi og að þeir sem eru þegar háðir honum haldi áfram með sína neyslu, en þá er líka eðlilegt að þeir greiði þennan skatt fyrir hana vegna þess að hún muni valda skaða til lengri tíma. Það er eðlilegt. Þetta mun hins vegar hafa fælandi áhrif á hópinn sem er hvað viðkvæmastur fyrir háu verði og það er yngra fólkið. Er það ekki það sem við viljum? Það er það sem við viljum. Ég fæ ekki þessi rök hv. þingmanns til að ganga upp. Ef menn ætla að bera saman árangur hvað varðaði tóbaksreykingar skulu þeir líka fara sömu leiðir. Þar er sérstök gjaldtaka.

Ég hefði haldið að skynsamur maður eins og hv. þm. Pétur Blöndal hvað varðar skattlagningu væri sammála þeim sem töluðu fyrir því að ef það sem menn gera og velja að gera hefur áhrif á þriðja aðila, í þessu tilfelli ríkissjóð, sé eðlilegt að þeir greiði fyrir það. Í staðinn ætlar þessi ríkisstjórn að hækka gjöld á þá sem eru að borða vöru sem hefur minni skaða eða engan en lækka verð á sykri þó að (Forseti hringir.) vitað sé að það muni valda skaða og hafa íþyngjandi áhrif (Forseti hringir.) á heilbrigðiskerfið.