144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alltaf að segja sama hlutinn og er farinn að verða leiður á því. Ég hef sagt áður af hverju ég var á móti sérstöku skattþrepi upp á 14% á ferðaþjónustuna. Það var eingöngu vegna þess að það var verið að bæta við nýju þrepi í virðisaukaskattinn, flækja kerfið enn frekar. Ég gat ekki staðið að slíku. En svo sagði hv. þingmaður, og það er dálítið merkilegt, að við hefðum ekki framlengt auðlegðarskattinn. Það er enn merkilegra, herra forseti, að hv. þingmaður var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra frá 1. október 2012 til loka kjörtímabilsins 2013. Hann var þá í þeirri stöðu að setja um þetta lög og ég skil ekkert í því af hverju hv. þingmaður framlengdi ekki auðlegðarskattinn. Hvernig stendur á því að hann gerði það ekki? Hann er núna að tala um að aðrir hafi ekki gert það.

Núverandi stjórnarflokkar eru ekkert yfir sig hrifnir af auðlegðarskattinum en hv. þingmaður er það og af hverju í ósköpunum stóð hann sig ekki í stykkinu þá síðustu mánuði sem hann var í embætti, síðasta hálfa árið eða nærri heilt ár sem hann var í því embætti að vera fjármálaráðherra, og lagði fram frumvarp um að framlengja þennan skatt? Hann gerði það ekki.