144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:21]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var vegna þess að hann var í fullu gildi allt það ár. Þá hefði verið eðlilegast að gera það um haustið með öðrum aðgerðum. Hv. þingmaður segir að ég sé svo hrifin af auðlegðarskatti. Þá spyr ég til baka: Ætlar hv. þingmaður að styðja hækkaðan skatt á matvæli, á bækur, á gistiþjónustu, á afþreyingariðnaðinn, kvikmyndir og tónlist, af því að hann sé svo óskaplega hrifinn af skattlagningu á þessa aðila? Er það þess vegna? Þetta snýst nefnilega alltaf allt um forgangsröðun og hv. þingmaður hefur afhjúpað fyrir okkur að hann sé ekki hrifinn af auðlegðarskattinum og viðurkennt það í þessum stól á sama tíma og hann notar það til að verja hækkun á skatti á matvæli, bækur og aðra afþreyingu eins og tónlist og kvikmyndahús — og ferðaþjónustuna. Þetta sýnir í hnotskurn muninn á minni sýn og hv. þingmanns.

Ég er enginn sérstakur aðdáandi skatta út af fyrir sig. Ég veit hins vegar að við þurfum fjármuni til að standa straum af sameiginlegum kostnaði samfélagsins og þá þurfum við að velja og hafna með hvaða hætti það er gert. Hv. þingmaður ætlar að gera það með atkvæði sínu, væntanlega með því að hækka skatta á ferðaþjónustu og matvæli og auka álögur á þá sem lægstar hafa tekjurnar. Það er bara ekki sú leið sem ég hef talað fyrir.