144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

sáttanefnd í læknadeilunni.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil beina máli mínum til hæstv. heilbrigðisráðherra og ræða við hann um læknadeiluna. Það þarf ekki að koma á óvart því hún hefur verið mjög ofarlega í huga okkar hv. þingmanna í öllum umræðum um fjárlög. Verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar áfram eftir áramót og ég þarf ekki að fara yfir það fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða áhrif það hefur. Okkur hefur orðið tíðrætt hér í salnum um stöðugleika. Ég er sammála því að mjög mikilvægt er að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu, en það er líka mikilvægt að við reynum að ná stöðugleika innan heilbrigðiskerfisins því það er ein af grunnstoðum samfélags okkar.

Ég mun ekki taka afstöðu hér enda er það ekki mitt hlutverk frekar en þingmanna nákvæmlega hvernig á að leysa úr þessari kjaradeilu, en það lítur hins vegar svo út fyrir okkur sem fylgjumst með að málið sé komið í algjöran hnút. Við hv. formenn stjórnarandstöðuflokkanna, Vinstri grænna, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Pírata, höfum lagt það til að notuð verði sú heimild sem er í lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar er heimildarákvæði um að ríkisstjórnin geti, ef sýnt þykir að vinnudeila hafi mjög alvarlegar afleiðingar, skipað sérstaka sáttanefnd til að vinna að lausn deilunnar. Samráð skuli haft við ríkissáttasemjara og deiluaðila áður en slík sáttanefnd verði skipuð.

Nú horfir það svo við okkur að deilan sé í alvarlegum hnút. Við sjáum fram á kostnað sem hleðst upp í framtíðinni, aukna biðlista eftir aðgerðum og öllum öðrum verkum og gríðarlegar áhyggjur almennings í landinu af stöðu mála í heilbrigðiskerfinu. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann telji það vænlegan möguleika að slík sáttanefnd verði skipuð og reynt verði að vinna að lausn málsins með þeim hætti áður en áframhald verður á verkfallsaðgerðum sem hafa verið boðaðar eftir áramót, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir heilbrigðisþjónustuna og þar með almenning í landinu.