144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[21:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir sem standa að tillöguflutningi um aukin virkniúrræði greiða atkvæði þegar þetta mál kemur til afgreiðslu.

Varðandi tryggingagjaldið þá reyndi ég mikið í fyrrahaust að vekja athygli á þeirri ótrúlegu ráðstöfun sem ríkisstjórnin greip þá til en fór merkilega hljótt í gegn, fáir sem áttuðu sig kannski á því, enda var hún vandlega falin í mismunandi frumvörpum og erfitt að fá yfirsýn yfir heildarmyndina. En veruleikinn var sá að ríkisstjórnin, meiri hlutinn, færði úr sérmerktum hlutum tryggingagjaldsins nærri 1 prósentustig með því að helminga tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs, með því að lækka umtalsvert þann hluta tryggingagjaldsins sem hefur runnið til Ábyrgðasjóðs launa og með því að taka verulegan skerf af því sem áður var í atvinnutryggingagjaldi og færa inn í almennt tryggingagjald. Þannig að í staðinn fyrir að með lækkandi atvinnuleysi hefði tryggingagjaldið núna getað verið komið niður um um það bil 1 prósentustig hefur það lækkað einu sinni um 0,1% og á að lækka aftur á næsta ári um 0,1%.

Tryggingagjaldsstofninn er yfir 1 þús.(Forseti hringir.) milljarðar kr., launagreiðslusumman í landinu, (Forseti hringir.) þannig að þetta eru 10 milljarðar (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin hefur með þessu haft af atvinnulífinu.