144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hefur borið nokkuð á góma í umræðu hér um fjárlögin og heildarsýnina á þau og ég held að það væri að bera í bakkafullan lækinn að bæta við þá umræðu að því er varðar þá staðreynd að hækkanir hafa tilhneigingu til að skila sér hratt en lækkanir síður. Það þarf svo sem engar nýjar rannsóknir til þess að draga upp þá staðreynd.

Hins vegar finnst mér stundum þegar við erum að ræða þennan þátt og fleiri í þessu samhengi öllu saman eins og við hnjótum um smáatriðin, mér finnst eins og við séum að velta vöngum yfir því sem minna máli skiptir þegar við, þetta velmegandi samfélag sem hér er, horfumst í augu við það að fátækt er fyrir hendi í samfélaginu, að það er raunveruleg fátækt fyrir hendi í samfélaginu. Það ætti í raun að vera viðfangsefni okkar númer eitt, tvö og þrjú að útrýma fátækt á skipulegan hátt. Það gerum við ekki með því að hætta við að hækka eitthvað upp í 12% og hækka það upp í 11%. Það gerum við með því að ná böndum yfir þann hóp sem á í mestum erfiðleikum og beina aðgerðum í áttina að honum, en um leið að átta okkur á því að hver einasta aðgerð sem ríkisstjórnin og þingið ákveða hefur líka áhrif á fátækt fólk Ef aðgerðin er þeirrar gerðar að hún eykur á fátækt þá eigum við ekki að fara þangað.

Það gildir einu hvort það er aukin kostnaðarþátttaka, dýrari matur, (Forseti hringir.) lokun framhaldsskólanna eða hvað það er. Þetta eykur allt saman á efnislega og menningarlega fátækt í þessu samfélagi. (Forseti hringir.) Og þangað megum við bara alls ekki stefna.