144. löggjafarþing — 49. fundur,  16. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[00:02]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir að spyrja hér um fátæk börn af því að ég hef ekki séð neina samhygð eða neinar aðgerðir til að sporna við ört vaxandi barnafátækt í þessu landi. Það hafa ekki komið upp neinir aðgerðahópar. Ég mundi segja að það þyrfti til dæmis, og hefði þurft að taka á áður en við afgreiðum fjárlög, samhent átak á milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins til þess að sporna við fátækt barna. Þetta er eitthvað sem var fyrirséð að mundi gerast í kjölfar mikils hruns, og við megum ekki gleyma því hvað þetta hrun var gríðarlega mikið. Og við megum ekki gleyma því að í svona miklu hruni þá gliðna auðvitað undirstöðurnar.

Ég sé fólk í frjálsu falli viðstöðulaust og það sem mér finnst svo skelfilegt er að það er eins og enginn vilji sé hér inni til að gera eitthvað til þess að stoppa þetta. Við horfum upp á börn, ótrúlegan fjölda barna sem sofna svöng hér á Íslandi. Og það er ekki hægt að ætlast til þess að þau eigi að fá mat út mánuðinn með því að foreldrarnir fari til mæðrastyrksnefndar því að þær úthlutanir eru ekki í eðli sínu þannig að það dugi.

Íslendingar eru upp til hópa mjög stolt þjóð og maður segir oft ekkert af sínum vanda, segir ekki frá því að maður sé veikur eða fátækur nema í brýnustu nauðir reki, og það fer enginn á þessa staði nema út af brýnni nauð. Það lætur enginn vita af fátækt sinni nema út af brýnni nauð og við bregðumst ekki við því hér. (Forseti hringir.) Það finnst mér skammarlegt.