144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu og að fá tækifæri til að svara henni hér.

Þessar tölur liggja ekki enn þá fyrir því að svo virðist sem vel stætt fólk hafi óvart sótt um leiðréttinguna og ekki staðfest hana í desember þannig að við vitum ekki enn umfangið á þessum tölum. Það er vitað hve margir sóttu um en nú reynir á það hve margir staðfesta þá umsókn sem þeir sendu.

Það voru gleðileg tíðindi sem gerðust í þingsal í gær þegar þingmenn samþykktu fjáraukalögin því að þá var formlega búið að hrinda skuldaniðurfellingunni af stað. Nú fara hlutirnir að gerast.

Þar sem þingmaðurinn spurði sérstaklega um varúðargreiðslu til Íbúðalánasjóðs þá var gert ráð fyrir því í fjáraukalögunum að ríkið legði Íbúðalánasjóði til 2.400 milljónir vegna skuldaniðurfellingarinnar.

Verði þetta minna en 2.400 milljónir verður það fært til baka í ríkisreikningi (Forseti hringir.) þegar þessi vegferð er á enda runnin og ljóst hve margir sóttu um þessa leiðréttingu.