144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það tókst að koma vitinu fyrir meiri hlutann og leiða honum villu síns vegar í ljós. Ég fagna þar af leiðandi þessari breytingartillögu sem býr til ágætt svigrúm til að vinna úr málefnum Bankasýslunnar og hvernig farið verður með meðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Það er ánægjuefni, smásigur sem vannst í því en kostaði verulegt erfiði og þurfti að draga ráðherra hingað í ræðustólinn eftir ótal tilraunir til að fá hann til að viðurkenna að frágangur málsins væri ófullnægjandi og það yrði að laga þetta.

Því miður tókst það ekki í ýmsum öðrum tilvikum eins og varðandi reginhneykslið og klúðrið með Háskólann á Akureyri. En ég verð að segja að það var drengilega gert hjá meiri hlutanum, stjórnarliðinu öllu, að ganga í samsekt með formanni fjárlaganefndar og liðsmönnum hennar og sérstaklega af hæstv. menntamálaráðherra sem veit að verið var að brjóta lög með þessari lögskýringu. Engu að síður létu menn sig hafa það að fella tillögu sem hefði bjargað því klúðri.