144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

forsendur kjarasamninga og samningar við lækna.

[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég er alls ekki að boða það að meðaltekjufólk eigi ekki að fá kjarabætur í komandi kjarasamningum. Þvert á móti tók ég sérstaklega fram að það væri jafn mikilvægt að leggja áfram áherslu á að bæta kjör meðaltekjufólks og fólks með lægri tekjur.

Það gleður mig að heyra að hv. þingmaður hefur endurnýjað skilgreiningu sína á meðaltekjufólki og hátekjufólki, en í umræðum hér ekki alls fyrir löngu um skuldaleiðréttingu stjórnvalda voru allir þeir sem voru með meðaltekjur ríkisstarfsmanna til dæmis, fólk í BHM eða BSRB, allt í einu orðið hátekjufólk að mati stjórnarandstöðunnar og farið að þiggja sérstakan stuðning sem hátekjufólk. Það er gott að þetta hefur þá verið leiðrétt og hv. þingmaður hefur aftur farið að líta á meðaltekjufólk sem meðaltekjufólk.

Það verður mikilvægt verkefni í komandi kjarasamningum að nýta það svigrúm sem er til staðar til að bæta kjör þess fólks og að sjálfsögðu þeirra sem eru með lægri tekjur en það.