144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

grunnskólar.

426. mál
[18:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, ekki svaraði það alveg þeim spurningum sem hv. þingmaður hafði. Spurningin er um afstöðu hæstv. menntamálaráðherra til þess að einkafyrirtæki greiði sér arð af þeim greiðslum sem viðkomandi einkafyrirtæki fær fyrir að annast alfarið alla grunnskólaþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi.

Ef til að mynda slík þjónusta er boðin út bjóða menn væntanlega í verkefnið og eru valdir til þess á forsendum einhvers útboðs. Telur ráðherrann að það sé eðlilegt skipulag að menn geti greitt sér arð af þeim rekstri og þá sparað í einstaka rekstrarþáttum sem eftir atvikum getur bitnað á þjónustunni? Nú hefur þetta ekki verið áhyggjuefni fyrir okkur hingað til, það hefur ekki verið mikið gróðaverkefni að reka einkaskóla, þá fáu sem hafa verið reknir á höfuðborgarsvæðinu, í raun og veru þvert á móti. Það er engu að síður ástæða til þess að ræða þetta ef menn taka alfarið yfir alla grunnskólaþjónustu í heilu sveitarfélagi.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra að því hvaða tök sveitarfélögin hafa á því ef rekstraraðili sem samið er við skiptir um eigendur, því að í því hafa menn lent í nálægum löndum, að slík félög hafa skipt um eigendur, og eigendaskiptin hugnast ekki alltaf sveitarfélaginu eða samfélaginu sem við hefur tekið. Og hvort það þurfi þá samþykki sveitarstjórnarinnar í hvert sinn sem slíkur aðili skiptir um eigendur eða hvernig því er háttað, hvaða tæki sveitarfélagið hefur til þess að gera breytingar ef breytingar verða hjá rekstraraðilanum sem upphaflega var samið við.