144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að undirstrika orð hv. 9. þm. Reykv. s. þegar hann fjallar um vinnubrögðin hjá hv. formanni atvinnuveganefndar í þessu máli.

Þingflokkur Pírata samanstendur af þremur einstaklingum sem þurfa að manna átta nefndir sem funda að jafnaði fjórum sinnum í viku. Stór hluti af starfi okkar snýst um forgangsröðun og þá er það grundvallaratriði að við vitum hvað við erum að fara að tala um. Þegar það gerist trekk í trekk að eitt stærsta bitbein í íslenskri stjórnmálaumræðu er ekki einu sinni á dagskrá höfum við ekki þetta færi á að forgangsraða. Og það gengur ekki, virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Helga Hjörvars og óska eftir því að forseti beiti sér fyrir því að þessum vinnubrögðum verði hætt hið snarasta.