144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

niðurstaða fundar forseta og þingflokksformanna.

[14:18]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill greina frá því í framhaldi af þeirri umræðu sem fór fram undir liðnum fundarstjórn forseta í morgun að það fóru fram fundir annars vegar í forsætisnefnd og hins vegar meðal þingflokksformanna. Forseti áréttaði þau sjónarmið sem hann setti fram í stuttu máli í morgun þegar þessi mál voru til umræðu með hvaða hætti þau mál sneru að þinginu, rétti þingmanna til að leggja fram breytingartillögur og stöðu forseta.

Forseti hefur haft aðstöðu til að fara yfir málið í framhaldi af þeirri umræðu sem átti sér stað hér á haustdögum af svipuðu tilefni. Niðurstaða forseta er í sem skemmstu máli eftirfarandi: Í 8. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun er kveðið á um það að verkefnisstjórn sé ráðherra til ráðgjafar við undirbúning að gerð tillagna fyrir verndar- og orkunýtingaráætlun. Síðan er nánar kveðið á um þetta í 9. og 10. gr. laganna, bæði um verksvið, verklag og málsmeðferð. Því hefur verið haldið fram að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna sé í raun fyrir það girt að þingið geti lagt til breytingar á rammaáætlun. Þá er þess að geta að rammaáætlun byggir á þingsályktun. Samkvæmt 38. gr. stjórnarskrárinnar hafa þingmenn rétt til að flytja frumvörp og þingsályktunartillögur og þar með að sjálfsögðu breytingar við þingmálið.

Ef við skoðum þetta síðan í samhengi við þingskapalögin sjálf er gert ráð fyrir því samkvæmt 40.–46. gr. að þingmenn, einn eða fleiri, geti lagt fram breytingartillögur. Með öðrum orðum, réttur þingmanna til að flytja breytingartillögur og hafa áhrif á þau mál sem eru lögð fyrir þingið er mjög ríkur og afdráttarlaus. Það er með hliðsjón af þeim ákvæðum, jafnt í stjórnarskrá sem þingskapalögum, að niðurstaða forseta er að það sé augljóst að ekki sé hægt með almennum lögum — og forseti er ekki sérstaklega að skírskota til þeirrar lagasetningar sem mest hefur verið til umræðu heldur vísar hér almennt til almennra laga — að takmarka réttindi þingmanna til að leggja til breytingu við þingmál sem er til umfjöllunar á Alþingi.

Þá er komið að kjarnaspurningunni: Getur forseti hlutast til um þá málsmeðferð sem höfð var varðandi það tiltekna mál sem hér hefur svo mjög verið rætt í morgun? Það er eindregin skoðun forseta að auðvitað geti hann ekki gripið inn í þá málsmeðferð og þar með takmarkað rétt þingmanna. Svo vill forseti vekja athygli á því sem er líka ákveðið lykilatriði í þessu sambandi, að hér er um að ræða að meiri hluti nefndarinnar ákvað að senda tillögur sínar varðandi orkunýtingarkosti til umsagnar. Hér er ekki um að ræða að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni. Hér er ekki um að ræða að nefndin sé að taka mál út úr nefndinni til að fjalla um það á Alþingi við síðari umr. Hér er um það að ræða að meiri hlutinn er að senda þessi mál til umsagnar.

Forseti hefur rætt við formann nefndarinnar sem hefur tjáð forseta að á morgun sé fyrirhugaður fundur í atvinnuveganefnd og að þetta mál verði þá á dagskrá.

Þetta er það sem forseti vill segja sérstaklega um þetta mál að þessu leyti en forseti vill líka nefna það að hann telur tilefni til þess að yfir þessi mál sé farið almennt, án hliðsjónar af þessu máli eingöngu, og aflað lögfræðilegra gagna á vettvangi Alþingis um málsmeðferð þar sem þessi álitamál koma upp. Forseti mun þegar því er lokið taka það fyrir í forsætisnefnd og meðal þingflokksformanna.