144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er komið að kjarabótum fyrir almennt launafólk í landinu. Við sjáum núna á þessu vori, síðast í gær hjá Starfsgreinasambandinu, settar fram kröfur vinnandi fólks um hlutdeild í lífskjarabatanum sem hér hefur orðið á síðustu árum. Það er full ástæða til því að það hafa sannarlega verið nægir peningar, bæði til þess að lækka skattana á efnaðasta fólkið í landinu, lækka skattana á útgerðina í landinu, til þess að hækka verulega laun, ekki aðeins á lækna í einhverjum undantekningarsamningi heldur í fleiri kjarasamningum og sömuleiðis á hinum almenna vinnumarkaði laun stjórnenda og millistjórnenda langt umfram það sem aðrir hafa fengið.

Það er þess vegna holur hljómur í því ef stjórnvöld eða forustumenn atvinnulífsins ætla að fara að kalla eftir því að hér eigi að vera þjóðarsátt í landinu sem borgist einungis af láglaunafólkinu, að það sé fólk á almennum launatöxtum sem eigi að axla byrðarnar og horfa upp á alla aðra skara eld að sinni köku, fá skattalækkanir og launahækkanir langt umfram þá sem eru á launatöxtunum.

Nei, virðulegur forseti. Ef einhver þjóðarsátt á að vera verða allir að taka þátt í henni. Þá verður fólkið sem hitann og þungan og ber af hinum daglegu störfum í þessu landi að fá ríkulegan hlut þess lífskjarabata sem orðið hefur á síðustu árum í sinn hlut. Það hefur það enn ekki fengið. Eftir því verður kallað á þessu vori.