144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka svar hv. þingmanns. Ég er einmitt með þessa tillögu til þingsályktunar og biðst afsökunar á því að hafa talað um flutningsmann en ekki meðflutningsmann.

Í tillögu til þingsályktunar um stofnun Landsiðaráðs er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þess að siðfræðilegra sjónarmiða sé gætt við ákvarðanir, stefnumótun og eftirfylgni hvarvetna á opinberum vettvangi. Mikilvægt sé að sá siðfræðivettvangur verði óháður og sjálfstæður um val á verkefnum og málsmeðferð. Því velti ég fyrir mér, og mér fannst mjög gott hjá hv. þingmanni að nefna það að í greinargerðinni með tillögunni er vísað í siðfræðinefndir í nágrannalöndum okkar og hvernig það hefur aðstoðað við betri og upplýstari ákvörðunartöku. Þetta er ég nú að reyna að setja í samhengi við þá ákvörðun forsætisráðherra að leggja niður núverandi samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og færa þá ákvörðunartöku inn á borð forsætisráðuneytisins þar sem ekkert er kveðið á um hvort einhver annar á að koma að þeirri ákvörðunartöku en forsætisráðherra sjálfur.

Mig langar því að vita og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðanir akkúrat á þessari niðurlagningu nefndarinnar.