144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti fimm mínútur til þess líklegast, ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hæstv. forsætisráðherra um að eining hafi verið um þennan Fiskistofuflutning, hann opnaði á umræðuna um það mál sjálfur hérna rétt áðan.

Þetta snýst um aðferðafræði og um það er 1. gr., um ákvörðun ráðherra. Ég spurði: Telur hann það fyrirkomulag betra en að slíkur flutningur færi hér í gegnum þingið? Var heimilt að flytja?

Síðan spurði ég í ræðu minni, og hef ekki fengið svör við því, um sérstakan stjórnsýsludómstól sem hér er nefndur, hvort ráðherra sjái hann fyrir sér og í hvaða málaflokkum það mundi helst vera. Ég spurði líka um nefnd sem er að störfum innan Stjórnarráðsins og eru nefnd tiltekin verkefni hennar, m.a. að greina stöðu, styrkleika og veikleika stofnanakerfis ríkisins, og hvaða sjálfstæðu stjórnsýslunefndir eigi rétt á sér, þ.e. þeim verði ekki fundinn staður inni í ráðuneytunum. Kemur fram neðst á bls. 8 í athugasemdum við frumvarpið að ástæða sé til að mótuð verði löggjafarviðmið um það í hvaða tilvikum slíkar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir eigi rétt á sér og er nefnd að störfum innan Stjórnarráðsins sem hefur það verkefni meðal annars. Þessu beindi ég til hans í ræðu minni fyrr.