144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[19:00]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Skil ég það þá þannig að starfsmenn Fiskistofu hafi fengið fréttirnar áður en þær voru fluttar á ársfundi Atvinnuþróunarfélags Akureyrar, var það ekki þar sem þetta var? Það var þá gott að fá að vita það.

Annað sem ég kann ekki við er að það er verið að væna okkur þingmenn kjördæmisins um að tala gegn þessum flutningi sem er bara alls ekki rétt, en mér finnst líka svolítið gamaldags hugsunarháttur að ef slæm vinnubrögð eru í gangi þá eigi maður að fagna því af því að það getur þjónað hagsmunum kjördæmisins. Maður talar bara gegn slæmum vinnubrögðum óháð því í hvaða kjördæmi maður er. Ég segi enn og aftur: Ég skil eiginlega ekki þessa umræðu. Ég vil gjarnan fá svör við því hvort starfsmennirnir hafi vitað þetta fyrir fram.

Það er ekkert skrýtið að við skulum vera að ræða þetta vegna þess að 1. gr. virðist beinlínis sett hér til að hægt sé að framkvæma þennan flutning og ekkert óeðlilegt að þingmenn ræði það. Bara þannig að það sé ítrekað þá er ekkert að því að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu norður til Akureyrar, hún á vel heima þar, en það verður að vanda til verka og gera það faglega eins og alltaf (Forseti hringir.) þegar við flytjum ríkisstofnanir.