144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, um skilyrðingu fjárhagsaðstoðar.

Ég vil í upphafi byrja á að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir hennar örstutta sögulega yfirlit um tilurð eða þróun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, en það er að mínu mati einhver sú dýrmætasta löggjöf sem við eigum enda er þetta grunnöryggisnetið okkar. Þetta er netið sem grípur okkur síðast ef við höfum lent í erfiðleikum í lífinu og tryggir okkur fjárhagsaðstoð.

Með þeim breytingum sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir mælti hér fyrir er einmitt verið að leggja það til að fjárhagsaðstoð verði skilyrt. Ef frumvarpið verður samþykkt, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki og ætla að reyna að gera mitt til þess að færa rök fyrir hvers vegna eigi ekki að samþykkja, þá höggvum við mjög stórt skarð í öryggisnet samfélags okkar.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu er tekið fram hverju eigi að ná fram með þeim breytingum sem hér eru lagðar til, en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Annars vegar er ráðherra falið að gefa út leiðbeinandi reglur til sveitarfélaga um framkvæmd fjárhagsaðstoðar þar sem m.a. sé kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar sem sveitarfélög geta nýtt sér við setningu eigin reglna um framkvæmd fjárhagsaðstoðar.“

Gott og vel. Þetta held ég að sé í sjálfu sér ekkert slæmt og ágætt að allir íbúar landsins sitji við sama borð, þ.e. sami grunnur sé tryggður fyrir alla óháð því hvar á landinu þeir búa. En mig langar að beina eftirfarandi spurningu til hæstv. ráðherra því mér tókst ekki að finna það í frumvarpinu: Hvernig á að finna þetta viðmið út? Út frá hverju á að ganga þegar lágmarksviðmið er búið til? Hvernig ætlum við að komast að því að ákveða þessa viðmiðunarfjárhæð? Mér finnst það skipta talsverðu máli til þess að átta sig á því hvernig málið er að öllu leyti vaxið, hvaða forsendur liggja að baki.

Hins vegar segir um tilgang þessara breytinga, með leyfi forseta:

„Hins vegar er lagt til að sveitarfélögin fái skýrari heimildir til að skilyrða fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaga við virkni þeirra sem eru vinnufærir og fá fjárhagsaðstoð þar sem þeir hafa ekki fengið störf.“

Það er hérna sem mér finnst við vera komin ansi langt út af sporinu. Það er hérna sem áhyggjur mínar vakna.

Það segir nefnilega líka í athugasemdum við frumvarpið að meginmarkmiðið sé að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn í atvinnuleysisbótakerfinu til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og þannig eigi að koma í veg fyrir langvarandi atvinnuleysi sem leiði til óvinnufærni. Þessu er ég sammála. Auðvitað eigum við að gera allt sem við getum til þess að stuðla að því að fólk sé ekki atvinnulaust til lengri tíma. En hvað ef einstaklingur er engu að síður kominn í þá stöðu að hafa verið lengi atvinnulaus? Þingið samþykkti fyrir nokkrum vikum að skerða atvinnuleysisbótatímabilið þannig að segja má að fólk hafi þar með styttri tíma til þess að leita sér að vinnu og koma sér út á vinnumarkaðinn en það hafði áður. Hvað ef virkniúrræðin virka ekki? Mér finnst alveg kolrangt að þrengja þá enn meira að þeim hópi sem er í mjög viðkvæmri stöðu.

Í umfjöllun um frumvarpið segir áfram að ætla megi að það leiði til þess að bæta þjónustu og stuðning við atvinnuleitendur sem hafa nýtt sér rétt sinn í atvinnuleysisbótakerfinu. Ég set stórt spurningarmerki við þetta því ég er hrædd um að þegar fólk er í þeirri stöðu að það er búið að klára rétt sinn til atvinnuleysisbóta og er ekki enn þá komið með vinnu, séum við með því að setja skilyrði um virkni og með öllum virkniskilyrðingum að ýta því enn þá lengra út á jaðarinn í samfélaginu þegar við ættum einmitt að gera meira til þess að toga það inn að, ég veit ekki hvort er hægt að segja miðjunni, eða inn í þátttöku í samfélaginu. Ég held að með því að taka fjárhagsaðstoðina af fólki séum við að ýta því í burtu, ekki að toga það inn.

Reynslan hefur til að mynda verið sú í Danmörku að fólk sem hefur verið lengi atvinnulaust og hefur vegna virkniskilyrðinga dottið út af bótum eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, þetta fólk ýtist bara út úr samfélaginu, út úr allri samfélagsþátttöku. Það verður í rauninni þátttakendur í einhvers konar hliðarsamfélagi þar sem það hefur ekki neina peninga til að framfleyta sér og því verða í raun allar bjargir bannaðar. Það vil ég alls ekki sjá gerast í okkar velferðarsamfélagi, sem vissulega hefur ýmsa hnökra. Auðvitað eigum við að laga þá. Hér erum við á leiðinni í kolvitlausa átt.

Í forsendum kostnaðarmats sem koma fram í fylgiskjali með frumvarpinu kemur fram að að mati velferðarráðuneytisins muni þær breytingar sem hér eru til umræðu hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélaga. Jú, það er auðvelt að sjá að svo hlýtur að vera ef hægt er að hætta að veita fólki fjárhagsaðstoð. En mér finnst ansi hart að ætla að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaga með þessu. Við vitum alveg að sveitarfélögin eru mörg hver ansi illa stæð, en við ættum ekki að leysa fjárhagserfiðleika þeirra með því að gera stöðu íbúa þeirra enn verri og eins og ég rakti hér áðan getu þeirra til þátttöku enn verri.

Mig langar því að beina einnig þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort af hálfu velferðarráðuneytisins hafi verið lagt mat á það hvaða áhrif eða afleiðingar það hafi á einstaklinginn sem fyrir því verður að skerða bótaréttinn eða að skilyrða fjárhagsaðstoðina. Mér finnst, eins mikilvægt og það er að skoða þetta „makró“, þ.e. áhrifin á sveitarfélögin, að við þurfum líka að skoða þetta „míkró“ eða áhrifin á einstaklinginn.

Það kom fram áðan í máli hæstv. ráðherra að ekki eigi að skilyrða eða skerða fjárhagsaðstoð til fólks sem ekki er að fullu vinnufært. Jú, gott og vel, en þá velti ég því fyrir mér hvaða áhrif hefur það í samspili fleiri þátta. Nú hefur talsvert verið talað um starfsgetumat þar sem líta á til getu fólks, þar á meðal getu fólks til að vinna. Ýmsir hv. þingmenn hafa talað fyrir því að það sé framtíðin, að líta til getu fólks. Gott og vel. En segjum sem svo að breytingarnar sem hér eru lagðar fram verði samþykktar sem og starfsgetumatið, í hvaða stöðu setur það þá fólk sem hefur skerta starfsorku en er að hluta fært um að sjá fyrir sér með atvinnu?

Við höfum mjög nýlegt dæmi um það þar sem einmitt fólki með skerta starfsorku var sagt upp hjá Strætó bs. Ég velti því fyrir mér, það er ekkert endilega víst að þeir einstaklingar sem lenda í þeirri stöðu fái vinnu innan þess tíma sem atvinnuleysisbótatímabilið nær yfir. Þá mundu þeir þurfa að reiða sig á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Hvað svo þegar þeim tíma er lokið? Ætlum við þá að skilyrða þetta fólk í virkni þegar við erum í rauninni búin að búa til kerfi sem segir að af því að þú hefur að hluta til starfsgetu samkvæmt einum lögum ætlum við að setja á þig skilyrðingar af því að þú getur ekki fengið vinnu samkvæmt öðrum lögum. Mér finnst þetta vera að verða svolítið flókinn línudans sem fólk gæti átt erfitt með að finna jafnvægi í. Nú er ekkert víst að það verði af þessum breytingum, hvorki starfsgetumatinu né þessu, en mér finnst það mikilvægt að við veltum þessu fyrir okkur því við hljótum að vera að hugsa um einhverja löggjöf til framtíðar og reyna að skoða heildaraðstæður sem fólk er sett í.

Þótt ég í hjarta mínu sé svo á móti þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til þá langar mig engu að síður að skilja það sem hér er lagt fram og reyna að meta áhrifin sem frumvarpið mundi hafa ef það væri samþykkt. Því langar mig rétt í lokin að beina einni spurningu í viðbót til hæstv. ráðherra og biðst afsökunar á því að þetta hafi kannski verið svolítið sundurlaust. En það varðar það sem segir í frumvarpinu að ef hjón eða sambúðarfólk njóti sameiginlegrar fjárhagsaðstoðar eigi að gæta þess að einungis fjárhagsaðstoð þess maka sem uppfyllir ekki lengur skilyrði samkvæmt ákvæði í 2. gr. skerðist. Þá velti ég því fyrir mér: Hvað ef hvorugur einstaklingurinn uppfyllir skilyrðin? Hvernig á þá að meta hvorn á að skerða og um hvað? Getur sambúðarfólk lent í því að báðir einstaklingar fái skerðingar ef þeir (Forseti hringir.) einhverra hluta vegna fá ekki (Forseti hringir.) virkni …?