144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt því aldrei fram að hæstv. ráðherra vissi ekki um hvað hún væri að tala. (Gripið fram í.) Ég var bara að óska eftir því að við fengjum að vita meira um það sem hæstv. ráðherra hefur verið að hugsa í þessum efnum, af því að mér finnst það bara ekki hafa skilað sér nógu vel hingað inn í umræðuna.

Síðan langaði mig að endurtaka síðustu spurningu mína, við eigum nú eftir að halda áfram að ræða þetta og nefndin á eftir að taka þetta fyrir o.s.frv., um þáttinn sem snýr að því hvaða svæði eiga að heyra þarna undir. Það er sagt að svæði í opinberri eigu fari sjálfkrafa inn og svo er vísað í þessa landsáætlun og þar er líka talað um einhver svæði í opinberri eigu sem færu sjálfkrafa inn. Hvað erum við að tala um? Erum við að tala um að þegar við erum á göngu upp á Esju getum við átt von á þessu, þegar við erum á gönguleiðum á Reykjanesi? Eða hvar er þetta nákvæmlega sem menn eru að ræða um? Ég held líka að það þurfi að skýra það í þessari umræðu þannig að menn geti farið að sjá þetta þá rétt fyrir sér.