144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:35]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég verð að segja að ég er algjörlega ósammála þeim forsendum sem þingmaðurinn dregur hér upp. Ég spyr, hvaðan hefur hann þær? Er það tilfinning hans eða eru einhver gögn sem styðja það að fólk velji sér endilega land bara út frá kostnaði á fari og gistingu? Það gengur ekki upp, þá hefðu ekki milljón ferðamenn komið til Íslands í fyrra, því að það er dýrt að koma til Íslands. Það er það. Ef það væri þannig værum við bara öll á Benidorm til að fá sól í andlitið, en enginn færi til Balí, skiljið þið. Það er ekki bara það sem verið er að sækjast eftir þegar maður ferðast. Það er upplifunin af staðnum, það er upplifunin af náttúrunni og mig furðar mjög að hv. þingmaður taki ekki náttúruna og þá upplifun og sérstöðu sem Ísland hefur með inn í þennan reikning. Ég held að það skipti mjög miklu máli og örugglega bara meginmáli. Fólk safnar fyrir svona ferðum eins og að koma til Íslands, eða flestir hverjir.

Hér erum við ekki alveg sammála. Ég tók eiginlega ekki eftir því hvort þingmaðurinn beindi einhverri sérstakri spurningu til mín. Mér fannst hann meira vera að lýsa sinni skoðun. Hann hefur þá tækifæri til að gera það núna í seinna andsvari.