144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

stjórn vatnamála.

511. mál
[21:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Ég velti aðallega fyrir mér því sem fram kemur í kaflanum um samráð. Ég þekki málið nokkuð vel og var ráðherra málaflokksins þegar lögin um vatnatilskipunina voru lögfest á Íslandi en sá hluti er varðar fjármögnunina var ekki leiddur í lög á þeim tíma. Hér gerir hæstv. ráðherra grein fyrir því í kafla í frumvarpinu um samráð með hvaða hætti það var. Eftirfarandi aðilar; Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök iðnaðarins koma þar fyrst og fremst að, af því að hér erum við að tala um, þ.e. nýja gjaldtöku fyrir notkun á vatni, nýja gjaldtöku gagnvart atvinnulífinu.

Ég held að það hljóti að valda hæstv. ráðherra nokkrum áhyggjum sem fram kemur hér og er ágætlega reifað í kaflanum um samráð, að allir þessir aðilar leggjast gegn framlagningu málsins. Allir leggjast gegn framlagningu frumvarpsins. Samorka segir að aldrei hafi verið talað um gjaldtöku. Sveitarfélögin segja að verið sé að gera ráð fyrir flóknu kerfi við litlar tekjur og fleiri tala um að hér sé um að ræða samfélagslegt verkefni o.s.frv. sem greiða eigi úr ríkissjóði.

Hér stendur að niðurstaða ráðuneytisins hafi verið að rétt væri að fara þá leið sem boðuð er í frumvarpinu en að hér sé að nokkru komið til móts við einstök sjónarmið haghafa. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telst það fullnægjandi af hendi þeirra haghafa sem lýst hafa mestum áhyggjum hversu lítið komið er til móts við þessi sjónarmið?