144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:52]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er einmitt það, við erum nefnilega ekki öll eins, og það er gott að búa í samfélagi þar sem ekki er krafa um einsleitni því að það er kúgandi.

Nú er það svo að mín reynsla af samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga, og eins það innsæi sem ég hef inn í starf nokkurra sveitarfélaga, er að mér finnst að jafnaði vera mikill metnaður þar. Hér er vandi á ferðinni af því að auknar álögur eru á sveitarfélögin út af fjárhagsaðstoð. En mér finnst í frumvarpinu verið að eyðileggja gott kerfi út af einhverjum skammtímavanda sem er tiltölulega auðvelt að leysa með auknum fjárframlögum. Ég veit að peningar eru ekki tíndir af trjánum en það er ekki hægt að ákveða að spara í lægsta í öryggisnetinu. Ég vil hvetja alla, bæði sveitarstjórnarfólk og alþingismenn, til að setja sig í spor þeirra sem eru fátækir og búa við það óöryggi sem því fylgir. Það skapar mjög erfiðar aðstæður hjá fólki og hefur að lokum mikil áhrif á sjálfsmyndina, og það hvernig við mætum þeim sem eiga í vanda skiptir gríðarlegu máli.

Ég held að við eigum öll að velta fyrir okkur — einhverjir hér hafa kannski þurft að leita á náðir sveitarfélags síns, það veit ég ekki — að ef við einhvern tíma verðum í þeim sporum að þurfa að sækja okkur fjárhagsaðstoð til að geta keypt okkur að borða, hvaða viðmóti við viljum mæta og hvað við teljum líklegasta viðmótið til að við getum farið aftur að sjá okkur farborða sjálf.